Jólatrjáasöfnun á síðasta degi jóla
Í dag er síðasti dagur jóla og sá 13. og má þá búast við að allir jólasveina verði komnir til síns heima á morgun. Hversdagsleikinn fer að taka á sig mynd á ný og liður í því er að taka niður allt jólaskrautið sem hefur einmitt brotið hann upp í svartasta skammdeginu. Körfuknattleiksdeild Tindastóls býður nú upp á ágæta þjónustu á Sauðárkróki, að sækja jólatré til þeirra er óska og koma þeim í endurvinnslu gegn vægu gjaldi eða kr. 1500.
Aðilar á vegum deildarinnar verða á ferðinni í dag og á morgun og er hægt að panta hjá Guðlaugi Skúlasyni sem gefur upp frekari upplýsingar.
Meira um þrettándann
Þrettándinn ber ævinlega upp á 6. janúar og er stytting á þrettándi dagur jóla og er almennt kallaður síðasti dagur jóla. Á Wikipedia segir að upphaflega hafi hann heitið opinberunarhátíð meðal Rómarkirkjunnar og hefur verið tengdur ýmsum kristnum trúaratburðum. Hann var talin fæðingardagur Krists, áður en sú trú fluttist yfir á 25. desember. Á 4. og 5. öld fór að tíðkast að minnast fæðingarinnar þann 25. desember en skírnar Krists og Austurlandavitringanna 6. janúar. Formlega var ákveðið með það fyrirkomulag árið 567 á 2. kirkjuþinginu sem haldið var í Tours í Frakklandi.
Fram til ársins 1770 hvíldi á þrettándanum helgi og var hann almennur frídagur en það ár var hann afhelgaður, sem og þriðji í jólum, þriðji í páskum og þriðji í hvítasunnu, sem einnig höfðu verið helgi- og frídagar, þar sem konungi fannst íslensk alþýða hafa of mikið af almennum frídögum. Við það minnkaði mikið allt tilstand á þessum degi
Algengt var að gera sér dagamun í lok jóla og einnig var þrettándinn einskonar varadagur fyrir útiskemmtanir ef veður brást um áramót. En nær eini siðurinn sem tengist þrettándanum í dag, eru útiskemmtanir með brennu, dansi og söng. Þar koma fram álfar, tröll, jólasveinar og aðrir slíkir. Fólk kemur saman við brennuna með kyndla, skýtur upp síðustu flugeldunum frá áramótunum og syngur saman áramóta og álfasöngva.
Ekki hefur Feykir haft fregnir af því að nokkur þrettándagleði verði haldin á Norðurlandi vestra þennan síðasta dag jóla að þessu sinni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.