Jólin heima – Tónleikar í beinni úr Bifröst

Sæþór Már Hinriksson, Jóhann Daði Gíslason og Eysteinn Ívar Guðbrandsson. Mynd: PF.
Sæþór Már Hinriksson, Jóhann Daði Gíslason og Eysteinn Ívar Guðbrandsson. Mynd: PF.

Einvalalið ungra listamanna í Skagafirði hófu æfingar sl. föstudag fyrir tónleika sem ætlunin er að halda síðustu helgina fyrir jól. Þeim verður streymt beint á Tindastóll TV og aðgengilegir öllum án endurgjalds. „Við ákváðum að halda þetta þar sem þetta er voða viðburðasnauður tími og samfélag sem fólk býr í núna,“ segir Jóhann Daði Gíslason einn skipuleggjanda tónleikanna.

Að sögn Jóhanns Daða er dagsetningin ekki alveg komin á hreint en klárt að tónleikarnir verða haldnir einhvern tímann um helgina 18. – 20. desember. Eitt sem gæti þurft að taka tillit til eru tónleikar sem haldnir eru annars staðar á netinu. „Já, það eru reyndar jólatónleikar þann 19. svo við þurfum aðeins að meta stöðuna en það verður alla vega sú helgi,“ segir Eysteinn Ívar Guðbrandsson og vísar þar í tónleika Björgvins Halldórssonar. Hann segir einvala lið skagfirsks tónlistarfólks koma fram undir stjórn Sigvalda Gunnarssonar.

Sent er út frá félagsheimilinu Bifröst á Sauðárkróki og verður hljómsveitin samansett úr tveimur starfandi böndum; Danssveit Dósa og Hljómsveit kvöldsins. Söngvarar verða svo ekki af lakara taginu en þeir eru: Rannveig Sigrún Stefánsdóttir, Dagný Erla og Sigvaldi Gunnarsbörn, Bergrún Sóla og Malen Áskelsdætur og Róbert Smári og Ingi Sigþór Gunnarssynir. Engir áhorfendur verða í sal eins og Covid-staðan er í dag einungis listamenn og einvalalið tæknimanna.

Að sögn þeirra Jóhanns og Eysteins er um nokkurs konar styrktartónleika að ræða þar sem fyrirtæki í Skagafirði aðstoða þá við að koma tónleikunum á en allur ágóði af þeim mun renna til Fjölskylduhjálpar kirkjunnar.
„Við viljum láta gott af okkur leiða. Hugmyndir var að hugsa m.a. til gamla fólksins sem hefur verið eitt, og vera með eitthvað sem lífgar upp á í skammdeginu. Við vonum sannarlega að þetta streymi verði gott fyrir það og þá fengið hjálp frá sér yngra fólki ef það getur ekki náð í þetta sjálft,“ segir Eysteinn en enn er verið að að leita að styrkjum hjá fyrirtækjum. Þeir segjast vera komna með góða styrki sem hjálpi þeim fyrsta spölinn.

„Vonandi heppnast þetta það vel svo þetta geti orðið árlegt, og þá vonandi að áhorfendur geti verið í sal í framtíðinni,“ bætir Jóhann Daði við.
Þeir segja nánari upplýsinga sé að vænta í vikunni en minna á að streymið er hægt að nálgast á heimasíðu TindstóllTV og YouTube rás þeirra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir