Jón vill hámarka vexti verðtryggða lána í 2%

Jón Bjanason hefur ásamt félögum sínum í vinstri hreyfingunni grænu framboði lagt fram á alþingi frumvarp til laga um vexti og verðtryggingu. Á bloggsíðu segir Jón að til þess að koma til móts við lántakendur verðtryggðra lána megi  verðtryggt lánsfé íbúðarkaupenda aldrei bera hærri ársvexti en 2%.

 

Hér á eftir er bloggfærsla Jóns í heild sinni.

Verðtrygging lána hefur verið mjög umdeild og er afar brýnt að  hún verði endurskoðuð  með það að markmiði að hún verði afnumin eða breytt þannig að  meira jafnræði sé á milli lánveitanda og lánþega. Ríkisstjórn og Seðlabanki hafa allt frá 2001 haft að meginmarkmiði í stjórn efnahagsmála að verðbólgan færi aldrei yfir 4,5% og að jafnaði á bilinu 2,5 - 3,5% .
Þetta hefur þó ekki gengið eftir og hefur verðbólgan nánast allt tímabilið verið yfir þeim mörkum. Ríkisstjórn og Seðlabanki bera því mikla  ábyrgð gangvart lántakendum sem í góðri trú treystu á að stjórnvöld stæðu við eitt meginmarkið sitt við stjórn efnahagsmála, verðbólgumarkmiðið.Það hefur hinsvegar nánast aldrei gerst á tímabilinu og nú er verðbólgan  milli 15 og 20 % og stefnir enn hærra ef dekkstu spár rætast.   Jafnframt eru stýrivextir í hæstum hæðum og er fyrisjáanlegt að með himinháum vöxtum og verðbólgu munu mörg heimili fara í þrot með  íbúðalán sín og önnur lenda í miklum vandræðum.
Til að koma til móts við lántakendur verðtryggðra lána höfum við þingmenn Vinstri Grænna lagt fram frumvarp til laga sem kveður á um að  verðtryggt lánsfé íbúðarkaupenda megi aldrei bera hærri ársvexti en 2%.   Þessari tillögu okkar fylgir svohljóðandi greinargerð:  
Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

1. gr.
    Við 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Verðtryggt lánsfé skv. 14. gr. skal ekki bera hærri vexti en 2%.
2. gr.
    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.
„ Með þessu frumvarpi er lagt til að verðtryggð lán beri aldrei hærri vexti en nemur 2%. Við þær sérstöku aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu, óðaverðbólgu og háa vexti, yrði þetta brýnt réttlætismál fyrir lántakendur.
    Sá sem tekur verðtryggt lán er með öllu óvarinn á tímum verðbólgu. Hækki verðlagið, þá hækka lánin. Við útreikning vaxta af verðtryggðum lánum er í dag skv. 4. gr. laganna miðað við að vextir skuli vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum hjá lánastofnunum, ef hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin.
    Með verðtryggingu er hægt að halda vöxtum lægri en ella vegna þess hve lítil áhætta lánveitandans er. Á Íslandi hafa lánveitendur getað tryggt lánsfjármagnið með verðtryggingu og breytilegum vöxtum, stundum meira að segja hvorutveggja í senn. Verðtrygging lána tryggir hagsmuni lánveitanda með þeim hætti að hann er varinn fyrir öllum sveiflum í verðlagi.
Nauðsynlegt er að taka verðtryggingu lána í heild sinni til endurskoðunar, en þar til slíkt hefur verið gert er mikilvægt að ná fram þeirri lagabreytingu sem hér er lögð til sem lágmarksvernd fyrir lántakendur verðtryggðra lána. Með þessu móti er lánskostnaður raunverulega lækkaður í stað þess að einungis sé lengt í snörunni eins og gert er með frestun afborgana“. 

 Í ljósi alvarlegra stöðu lántakenda vegna efnahagshamafaranna  og að hér er um mikið réttlætismál að ræða er það von okkar að þetta mál fái skjótan framgang á þinginu.

Fleiri fréttir