Jóna – atkvæði og ambögur
Út er komin hjá Bókaútgáfunni Hólum bókin Jóna - atkvæði og ambögur eftir Jón Ingvar Jónsson í samantekt og ritstjórn Símonar Jóns Jóhannssonar. Jón Ingvar var fæddur á Akureyri árið 1957 og ólst þar upp en lést langt fyrir aldur fram árið 2022. Hann var sonur Jóns Hafsteins Jónssonar stærðfræðikennari og Soffíu Guðmundsdóttur tónlistarkennari. Jón Ingvar hóf sína skólagöngu á Akureyri fimm ára gamall en veturinn 1965 – 1966 bjó hann hjá föðurbróður sínum Ingvari Gýgjari og Sigþrúði konu hans á Gýgjarhóli í Skagafirði og gekk þar í barnaskóla.
Mikill samgangur og kærleikur var milli bræðranna Jóns Hafsteins og Ingvars og dvöldu fjölskyldur þeirra í Skagafirði flest sumur fram á unglingsár Jóns Ingvars.
Vorið 1977 lauk Jón Ingvar stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri en hélt þá til náms í Austur-Þýskalandi. Hann starfaði um skeið sem forritari en lengst af og sér í lagi hin síðari ár starfaði hann við helsta áhugamál sitt, leiðsögn ferðamanna.
Snemma fékk Jón Ingvar mikinn áhuga á bragfræði, náði strax á menntaskólaárunum góðum tökum á þeirri list og síðar varð hann einn af þekktustu og bestu hagyrðingum þjóðarinnar. Hann var einkar glöggur maður og fróðleiksþyrstur og kunnur fyrir skemmtilegheit, spaugsemi og galgopahátt. Hann lék sér alla tíð með orð, var hnyttinn og hafði gaman af að fara hárfínt yfir strikið. Vísur eftir hann birtust í ýmsum vísnaþáttum í blöðum og tímaritum og á vettvangi veraldarvefsins. Jón Ingvar kom víða við í vísnagerð sinni. Hann orti á einlægan hátt um fjölskyldu sína, fjallaði um land og þjóð, menn og málefni, stjórnmál, trúmál og íþróttir. Hann lét sér fátt óviðkomandi og alls staðar er stutt í dillandi húmor og galgopahátt.
Ég hef alveg afleit gen,
enda fól og glanni,
rætinn, þver og illgjarn en
annars gull af manni.
Fólk er nafn sem fær að vara
fáein ár og deyr.
Ég er sjálfur jafnvel bara
Jón og ekkert meir.
Hestavísur
Blesi
Blesi minn er þarfur því
þó hann hósti og slefi
hnýtur skepnan aðeins í
öðru hverju skrefi.
Rauður
Heim mig Rauður haltur bar
með höfuð reigt.
Kenjótt skepna klárinn var
og kjötið seigt.
Þarfasti þjónninn
Í bílnum nú bilað er flest,
hann bognar ef í hann ég sest,
er drasl eins og gengur
og dugar ei lengur.
Ég held að ég fái mér hest.
Á Íslandi fokdýrt er flest
en finnst mér þó ranglætið mest
hvað bensínið hækkar
en buddgettið lækkar.
Ég held að ég fái mér hest.
Graði Skjóni
Af þér, Skjóni, orðspor fer
illt um víðan dalinn,
enda flýja undan þér
ærnar, kýr og smalinn.
Litla Jörp
Litla Jörp af fyli full
með flotta limaburði
kíkti á fola, klippti gull,
og kálaðist í skurði.
Óviðjafnanlegt
Margan gleður meyjarkoss
meður sanni,
en ekkert jafnast á við hross
undir manni.
Hungurtilfinning
Ég er eins og allt mitt kyn,
ekki miklu brenni,
en ef ég heyri hófadyn
hungurs fljótt ég kenni.
Lestrarhestur
Sólin spes á sundin blá
og sælleg nesin skín með funa
meðan Blesi Yrpu á
er að lesa biblíuna.
Afi minn
Aldrei sótti sykur og brauð,
sá var lítils metinn,
afi sem fór á honum Rauð
eftir að hann var étinn.