Jörð skalf í Skagafirði
Jarðskjálfti upp á 2.71 að stærð mældist samkvæmt Veðurstofu Íslands 11,1 km NA af Varmahlíð upp úr klukkan eitt í nótt. Upptökin virðast hafa verið nálægt bæjunum Þverá og Grænumýri í Blönduhlíð í um 10 km undir yfirborði jarðar.
Húsbændur í Grænumýri urðu varir við skjálftann sem varaði stutt en svo virðist sem drunur sem fylgdu hafi farið frá norðri til suðurs. Að sögn Kristínar Bergsdóttur húsfreyju var líkt og keyrt hafi verið á húsið. –Það glumdi í gluggum og allt titraði inni, en það datt ekkert úr hillum eða fór um koll, segir Kristín. Ekki er algengt að jarðskjálftar verði á þessu svæði og getur Veðurstofan ekki gefið neinar vísbendingar um hvað sé hér á ferðinni án frekari rannsókna.