Júlíus Jóhannsson stendur á bak við Góa og eldfærin
Laugardaginn 2. apríl frumsýndi Borgarleikhúsið og Baunagrasið barnaleikritið Eldfærin á Stóra sviðinu þar sem fyrsta ævintýrið af mörgum sem Gói mun á komandi árum gæða lífi með öllum töfrum leikhússins er sett á svið. Brottfluttur Króksari Júlíus Jóhannsson stendur á bak við uppfærsluna.
Feykir hafði samband við Júlíus og spurði hann út í það hvernig aðkomu hans að þessu verki væri háttað og hvað væri að frétta af öðru sem hann er að bardúsa við.
-Ég á fyrirtækið Baunagrasið sem er umboðsskrifstofa sem sérhæfir sig í viðburðum fyrir börn og fjölskyldufólk. Ég hef gengið með þá hugmynd í 10 ár að setja á svið Elfærin sem hefur verið mitt uppáhalds ævintýri frá því ég var barn. Rétti tíminn kom svo loks í fyrra, þá var ég á fundi með Góa. Ég bar undir við hann hvernig honum litist á að setja á svið Góa og Eldfærin. Honum leist rosa vel á það, samþykkti það og hófst strax vinnan við undirbúninginn. Fengum við Magnús Geir Þórðarson á fund við okkur og úr varð að við gerðum samstarfssamning við Borgarleikhúsið um uppsetningu leikritsins. Gói fékk síðan Þröst Leó Gunnarsson til liðs við okkur, leikur Gói dátann og Þröstur öll aukahlutverk, þar með talið, nornina og hundana. Gói skrifaði handrit Eldfæranna eftir H.C. Andersend og staðfærði söguna að okkar tíma. Vignir Snær og Gói sömdu svo nýja tónlist við verkið. Geisladiskur er að koma til landsins úr masteringu með sögunni og lögunum úr sýningunni sem Sena sem gefur út.
Hvernig hefur gengið?
Frá frumsýningu 2. apríl erum við búin að vera með 10 sýningar og eru 2500 manns búnir að koma að sjá. Útkoma leikritsins hefur farið fram úr mínum björtustu vonum. Viðtökurnar hafa verið frábærar, og þykir sýningin vera stórskemmtileg bæði fyrir börn og fullorðna.
Hvað hefur þú verið að gera undanfarin misseri?
Ég starfa á umboðskrifstofunni Prime er með Bubba KK og Ellen, Buff, Jón Jónsson, Papana ásamt því að vera með mikið að veislustjórum. Innan Prime er í samstarfi Paxal umboðskrifstofa sem er með Diktu, Friðrik Dór, Erp Eyvindar, Ourlives ofl. Nú nýjasta er Baunagrasið sem er fyrir fjölskylduna.
Hvað er framundan?
Þegar að við höfum lokið þessum sýningum þá verður farið í næsta leikrit sem verður Gói og Baunagrasið. Þar ætlum við að halda okkur við svipaða uppfærslu, tveir leikarar, Þröstur og Gói og sem verður einnig sýnt í Borgarleikhúsinu. Annars er ég sjálfur bara koma Norður í frí um páskana þar sem sólin skín sem hæst.
Á Vísi.is er skemmtilegt viðtal við leikarana Góa og Þröst Leó sem fara í allra kvikinda líki. Sjá HÉR.