Karfa hér þar og alls staðar
Það er alltaf nóg um að vera hjá körfuknattleiksdeild Tindastóls en þessa helgina munu lið deildarinnar keppa bæði heima og að heiman.
Hér á heimavelli eru það stelpurnar í minnibolta, undir stjórn Ástu Margrétar Benediktsdóttur, sem keppa í B-riðli á sínu öðru fjölliðamóti. Njarðvíkingar drógu sig úr keppni og því klárast mótið á laugardeginum. Mótið hefst kl. 11.15 í íþróttahúsinu og er áætlað að síðasti leikur mótsins hefjist kl. 16.15. Mótherjar stúlknanna eru Grindavík, Haukar og Hamar.
Kári Marísson heldur með sína stráka í 10. flokki til Garðabæjar þar sem þeir keppa í B-riðli. Mótherjar þeirra eru Stjarnan, Breiðablik, Fjölnir og Keflavík.
Þá er það 9. flokkur stúlkna, undir stjórn Halldórs Halldórssonar, sem keppir í A-riðli í Grindavík. Þar verða mótherjar stúlknanna heimastúlkur í Grindavík, Keflavík, Haukar og Njarðvík.
Körfuboltaskólinn verður með hefðbundnu sniði á sunnudagsmorguninn undir stjórn yfirþjálfara körfuknattleiksdeildar Borce Ilievski, vegna þess að mótið hjá minnibolta súlkna klárast á laugardeginum.
Það verður síðan meistaraflokkurinn sem slær botninn í þessa miklu körfuboltahelgi, með heimaleik gegn Fjölni á sunnudagskvöldið kl. 19.15. Stólarnir töpuðu fyrir KR-ingum í síðasta leik eftir tvo sigurleiki í röð þar á undan og vilja menn eflaust komast aftur á sigurbraut.