Karlakórinn Heimir hristir hrollinn úr áheyrendum
Karlakórinn Heimir byrjar vetrarstarfið með stæl föstudaginn 31. október með tónleikum í Frímúrarasalnum á Króknum. En þeir verða aldeilis ekki einir því með þeim á tónleikunum verður söngdívan Halla Margrét Árnadóttir sem nú gerir garðinn frægan á Ítalíu.
Höllu Margréti þekkja flestir en hún söng sig ung í hjörtu þjóðarinnar með laginu Hægt og hljótt sem var framlag Íslands til Evrovision seint á síðustu öld. Feykir hafði samband við Höllu Margréti og fékk að vita hvað væri helst í deiglunni hjá henni.
-Ég ákvað að koma í stutt frí eftir að hafa sungið í Konunglega óperuhúsinu í Torino, þar sem ég var að syngja í nýrri óperu, Blackout, eftir Pierino Scarcella og Robertu Faroldi, segir Halla Margrét. -Það var alveg stórkostleg reynsla að syngja í svona stóru óperuhúsi og fá svona frábærar viðtökur eins og ég fékk. Svo á ég frí til 6.nóvember, er ég hef æfingar á sýningu í Mantova, svo ég ákvað að nýta tímann og koma heim og gera eitthvað skemmtilegt.
-Ég hef tvö sl. ár sungið styrktartónleika fyrir Líknarfélag langveikra barna, Bergmál, þegar ég hef haft tíma og mun ég gera það aftur nú fyrir sunnan. Ég hef ekki verið iðin við að ferðast um landið mitt og leyfa fólki að fylgjast með mér og hefur hin íslenska söngmamma mín og kennari Snæbjörg Snæbjarnardóttir oft skammað mig fyrir það og ekki síst að fara ekki norður þangað sem hún er ættuð.
-Ég kom og söng með Kristjáni Jóhannssyni á guðdómlegum tónleikum um páska 2002 og eru viðtökur Norðlendinga enn greiptar i hjarta mitt og verða þar eflaust ávallt. Það var svo gaman og mikill heiður að fá að syngja fyrir annað eins áhugafólk um söng og þá var nú ekki lakara að fá að syngja með stórsöngvara á borð við Kristján. Þetta var mér einstök reynsla og ég tengdist einhvernveginn fast við ykkur hér.
Hvernig kom það til að leiðir ykkar Heimis lágu saman?
Mig hefur alltaf langað að koma aftur norður en tímaleysi setur svip sinn á heimsóknir mínar heim svo Snæja benti mer á að hafa samband við Stefán hjá Karlakórnum Heimi og sjá hvort ekki væri hægt að gera eitthvað með litlum fyrirvara. Þeir voru þá að íhuga tónleika eftir frægðarför i Rússlandi og leist vel á að fá mig með. Það er nú einu sinni svo að úr Skagafirðinum hafa komið bestu tenórar landsins og fel ég ekki aðdáun mína á Stefáni Íslandi sem ég tel að hafi haft þá allra fegurstu lírisku tenórrödd sem Íslendingar hafa átt. Þið eruð svokölluð tenórverksmiðja Islendinga!!