Karlakórinn Heimir og gestir í Hörpu

Þann 25. mars nk. verður haldin hátíðardagskrá í Eldborgarsal Hörpu sem tileinkuð er íslensku Vesturförunum og afkomendum þeirra. Hátíðin er liður í verkefni sem Vesturfarasetrið á Hofsósi og Karlakórinn Heimir í Skagafirði standa að og nefnist Kveðja frá Íslandi.

Á heimasíðu Hörpu segir að á hátíðinni verði Karlakórinn Heimir í aðalhlutverki ásamt einsöngvurunum Þóru Einarsdóttur sópran og Óskari Péturssyni tenór. Strengjasveit ásamt Tómasi Higgerson píanóleikara annast undirleik og gestakórinn Hljómfélagið, undir stjórn Fjólu Kristínar Nikulásdóttur mun einnig koma fram.

Á efnisskránni eru margar íslenskar og erlendar söngperlur sem Stefán Gíslason söngstjóri hefur útsett fyrir kórinn en einnig verður lagið Kveðja frá Íslandi frumflutt, en það er eftir Stefán Gíslason og textann á Kolbeinn Konráðsson. Lagið var samið sérstaklega í tilefni af ferð kórsins til vesturstrandar Kanada þann 20. apríl næstkomandi.

Yfirskrift hátíðarinnar er Vestur um haf og er hún undanfari fyrrgreindrar sem er farin í þeim tilgangi að viðhalda og efla tengslin við fólk af íslenskum ættum sem búsett er á vesturströnd Norður Ameríku. Um 180 manna hópur áhugasamra einstaklinga, listamanna og áhrifafólks mun fara í ferðina og taka þátt í viðburðum sem skipulagðir hafa verið í Vancouver og Victoria.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir