Kaupfélag Skagfirðinga á tímum COVID-19

Sigurjón R. Rafnsson aðstoðarkaupfélagsstjóri KS. MYND: PIB
Sigurjón R. Rafnsson aðstoðarkaupfélagsstjóri KS. MYND: PIB

Kaupfélag Skagfirðinga er eitt af stærri fyrirtækjum landsins og er með rekstrareiningar víða um land. Hvergi er þó starfsemin jafn viðamikil og í heimahéraðinu Skagafirði en ansi stór hluti Skagfirðinga starfar hjá KS með beinum eða óbeinum hætti og á því mikið undir því að rekstur KS gangi vel. Reksturinn hefur síðustu ár verið með eindæmum jákvæður en á þessum óvissutímum, sem kenndir eru við COVID-19, má ætla að ýmsir hafi engu að síður áhyggjur af lífinu og tilverunni og þar spilar atvinnu- og fjárhagsöryggi stóran þátt. 

Af þessu tilefni hafði Feykir samband við Sigurjón R. Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóra Kaupfélags Skagfirðinga, og lagði fyrir hann nokkrar spurningar.

Hverjar eru helstu áherslur KS nú á þessum óvissutímum? „Þær snúast eðlilega fyrst og fremst um að gera ráðstafanir til þess að tryggja framleiðsluöryggi eins og frekast er unnt,“ segir Sigurjón. „Stór hluti starfsemi KS, matvælaframleiðslan, flutningar og verslun, er skilgreind sem efnahagslega mikilvæg á þessum tímum. Því fylgir ríkari krafa um viðbragðsáætlanir og frekari aðgerðir til að tryggja rekstrarsamfellu. Auk allra almennra aðgerða, svo sem að skipta upp vinnustöðum, takmarka aðgang og umgengni um sameiginleg rými og að fá suma sem það geta til að vinna heiman frá sér, höfum við t.d. brugðið á það ráð að semja við starfsmenn sem alla jafna vinna störf sem ekki er hægt að vinna að heiman til að vera samt sem áður heima sem „varalið“. Sá hópur gæti t.d. komið inn og haldið framleiðslu matvæla og annarri starfsemi gangandi ef smit kæmi upp á vinnustaðnum og samstarfsfólk þeirra þyrfti að fara í sóttkví. 

Þetta er auðvitað róttæk breyting á daglegu starfi margra og mig langar að nota þetta tækifæri til að koma á framfæri þakklæti til þeirra mörgu starfsmanna félagsins sem hafa af æðruleysi og miklum skilningi tekist á við þessar breyttu aðstæður.“

Hvaða áhrif hefur Covid-19 helst haft á starfsemi Kaupfélags Skagfirðinga? Hvað hefur breyst? „Enn sem komið er snúast helstu áhrifin um að bregðast við ógninni eins og hún blasir við okkur í dag ásamt tilraunum til þess að rýna í mögulegar sviðsmyndir í framtíðinni. Við þekkjum ekki þann veruleika sem býður okkar frekar en aðrir en ég er sannfærður um að í sterkri stöðu kaupfélagsins eru fólgnir ýmsir möguleikar til þess að nýta þau sóknarfæri sem ávallt fylgja varnarbaráttu af þeirri tegund sem augljóslega er framundan. 

Það sem hefur breyst, og skiptir gífurlegu máli fyrir sóknarfærin, er að mínu viti gjörbreyttur skilningur fólks á þætti íslensks landbúnaðar og sjávarútvegs í fæðuöryggi í íslensku samfélagi. Ég held að hlustunarskilyrðin fyrir hreinleika íslenskrar náttúru, mikilvægi landbúnaðarins, hlutverki sjávarútvegsins og yfir höfuð sjálfbærni í framleiðsluatvinnuvegunum hafi gjörbreyst á síðustu vikum og mánuðum. Þess vegna hefur hlutverk KS sem forystusauðar á þessum vígstöðum aukist til muna og við tökum það alvarlega.“

Hefur eitthvað jákvætt gerst í kjölfar bannsins varðandi verslun og viðskipti,  gengur t.d. vel að selja fisk, kjöt og mjólkurvörur? „Einfalda svarið er sem betur fer já. Salan á einstökum afurðum hefur leitað jafnvægis eftir að hafa tekið ákveðið stökk, t.d. í köldum sósum og ídýfum, frosnu kjöti, öðrum kjötafurðum, mjólkurafurðum o.fl. Það hefur hins vegar eins og gefur að skilja orðið mikil tilfærsla í verslun með matvæli þar sem starfsemi veitingahúsa hefur nánast lagst af. Hægst hefur á sölu sjávarafurða sem eru að mestu leyti til útflutnings og orðið nokkur birgðasöfnun, en merki eru um að salan sé að taka við sér aftur. Það er hins vegar því miður ómögulegt að segja til um hver langtímaáhrifin verða af COVID-19 en við vitum að sama þörfin verður fyrir kjöt, fisk og mjólkurvörur hér eftir sem hingað til.“

Nú eru Skagfirðingar með flest sín egg í körfu KS. Eru verkefni næg hjá KS? „Þótt KS sé stórt í atvinnulífi Skagafjarðar þá er nú atvinnuflóran hér ansi fjölbreytt og jafnvel fjölbreyttari en í flestum öðrum héruðum á landsbyggðinni. Já, verkefnin eru sem betur fer næg og ekkert bendir til annars en að svo muni verða áfram. KS er í grunninn matvælaframleiðslufyrirtæki og þjónustufyrirtæki við grunnframleiðslu landbúnaðarins. Það í sjálfu sér er jákvætt því eftirspurn eftir matvælum verður alltaf til staðar. Nú er aukinn hljómgrunnur og skilningur opinberra aðila og almennings á mikilvægi innlendrar framleiðslu og að þjóðin sé sjálfbær þegar kemur að fæðuöryggi. Þetta kemur berlega í ljós við þessar aðstæður og er efst í huga flestra ríkja um þessar mundir. 

Það hefur einnig komið í ljós að hver er sér næstur þegar þrengir að. Við verðum óhjákvæmilega fyrir áhrifum af faraldrinum eins og allir aðrir. Það að vera í framleiðslu matvæla og þjónustu við frumframleiðslugreinar mun þó líklega þýða að áhrifin verða ekki í líkingu við það sem aðrar greinar þurfa að takast á við svo maður tali nú ekki um ferðaþjónustuna. Hingað til hefur starfsemin verið að mestu miðuð við full afköst og í nokkuð eðlilegu horfi,“ segir Sigurjón.

Lengri útgáfu viðtalsins er að finna í 17. tölublaði Feykis en blaðið kom út þann 29. apríl.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir