Kaupþing ekki eigandi Sparisjóðs Skagafjarðar
Sparisjóður Skagafjarðar stendur keikur í fjármálafári dagsins í dag. Sjóðurinn er í dag í eigu Afls sparisjóðs sem aftur rekur Sparisjóð Siglufjarðar og Sparisjóð Skagafjarðar og eiga því allir stofnfjáreigendur sjóðanna stofnfé sitt í Afli sparisjóði. Báðir sjóðirnir hafa það sem af er ári verið reknir með hagnaði.
CAD hlutfall sjóðanna er í dag 14,2% en til samanburðar er CAD hlutfall Sparisjóðs Þingeyinga 9,4 % en lágmarks Cad hlutfall fjármálafyrirtækja er 8,0%.
Það er því óhætt að segja að rekstur sjóðanna sé traustur og engin ástæða til að ætla annað en svo haldi áfram.
Fjármálaeftirlitið hafði ekki gengið frá samþykkt á kaupum Kaupþings á Sparisjóði Mýrasýslu en sjóðurinn á eitthvað á milli 80 - 90 % í Sparisjóðnum Afli.
Feykir.is spurði Kristján Snorrason, sparisjóðsstjóra hjá Sparisjóði Skagafjarðar, hvað þetta allt saman þýddi fyrir Sparisjóð Skagafjarðar. -Þetta þýðir bara það að við erum sjálfstætt fyrirtæki. Sparisjóðurinn Afl sem rekur Siglufjörð og Skagafjörð er sjálfstætt fyrirtæki með 1,1 milljarð í eigið fé og rekinn með hagnaði það sem af er þessu ári. Sparifjáreigndur hafa verið að koma verulega mikið undanfarna daga með peninga, bæði hingað til okkar og eins á Siglufjörð. Enda innlánin ríkistryggð eins og hjá öðrum og við ekki með hlutabréf og eða verðbréf þannig að það eru engar stórar sveiflur í þessum rekstri , útskýrir Kristján.