Kirkjan á Hofsósi mikið skemmd

Ófögur sjón blasti við séra Gunnari Jóhannessyni sóknarpresti á Hofsósi þegar hann kom í kirkjuna sína á Hofsósi í síðustu viku. Vatn hafði lekið af annarri hæð hennar þar sem vatnstankur er staðsettur.

-Ég fór í kirkjuna til að ná mér í efni til barnastarfsins sem beið þann daginn. Ekki blasti við skemmtileg sjón en nokkurra sentímetra djúpt vatn var í forkirkjunni og yfir öllu kirkjuskipinu, segir Gunnar.

Vatnið lak yfir rafmagnstöfluna sem er í skrúðhúsinu beint neðan við kompuna og við það fór rafmagnið allt úr lagi. Öll teppi eyðilögðust meira eða minna og gólfið allt illa farið. Þá fór mikið af efni forgörðum en það var geymt í skrúðhúsinu sem fór á flot. Þá fór orgelið ekki vel og ljóst að það þarf að stilla það vegna hins raka lofts.

Ekki er búið að meta skemmdirnar en ljóst er að taka þarf til hendinni í kirkjunni. -Við horfum þó björt fram á við og munum reyna að hafa hraðar hendur við endurbætur og lagfæringar og væntum þess að kirkjan verði glæsilegri og fallegri en áður þegar þær verða um garð gengnar. Aðventuhátíð kirkjunnar verður færð inn í félagsheimilið vegna aðstæðna en gert er ráð fyrir að Hofsósingar geti haldið upp á jólin sín með aftansöngi í kirkjunni á aðfangadagskvöld, segir séra Gunnar að lokum.

Fleiri fréttir