Kiwanisklúbburinn Freyja hjálpar konum í neyð

Oddný Ragna Pálmadóttir, Steinunn Gunnsteinsdóttir og Aldís Hilmarsdóttir raða fötum í kassa sem sendir verða í Konukot: Mynd: ÓAB.
Oddný Ragna Pálmadóttir, Steinunn Gunnsteinsdóttir og Aldís Hilmarsdóttir raða fötum í kassa sem sendir verða í Konukot: Mynd: ÓAB.

Félagar í Kiwanisklúbbnum Freyju í Skagafirði ákváðu að finna á heimilum sínum fatnað, hlý föt, óopnaðar hreinlætisvörur og annað sem gæti nýst til að sinna grunnþörfum þeirra kvenna sem sækja sér þjónustu í Konukot í Reykjavík, sem er neyðarathvarf fyrir heimilislausar konur.

„Konukot getur tekið á móti átta næturgestum í einu á milli 17:00-10:00 en við vitum að það eru mikið fleiri konur sem þurfa að sækja sér þessa þjónustu. Afgangurinn þarf því að vera úti ef þær komast hvergi annars staðar inn en sú tilhugsun er hræðileg,“ segir Oddný Ragna Pálmadóttir.

Hún segir að félagar í Kiwanisklúbbnum Freyju hafi viljað láta gott af sér leiða sem ekki kostaði endilega peninga en væri þó gullnáma fyrir aðra. Markmiðið væri því hugur en ekki hagur. „Þá kom upp sú hugmynd að heyra í meðal annars konukoti sem er neyðarathvarf fyrir heimilislausar konur og er ætlað að sinna grunnþörfum hvað varðar húsnæði, hreinlæti og mat. Við Freyjurnar tókum því saman af heimilum okkar föt, hlý föt, óopnaðar hreinlætisvörur og annað sem gæti nýst til að sinna þessum grunnþörfum kvennanna sem sækja sér þjónustu í konukot. Stjórnendur í Vörumiðlun hafa verið svo elskulegir að styrkja okkur um flutning kassanna suður sem innihalda „gullin“ okkar, sem er frábært, og viljum við senda þeim þakklætiskveðjur fyrir það,“ segir Oddný.

Í ársskýrslu Rauða Krossins í Reykjavík sem kom út í vor segir að aldrei hafi fleiri konur gist í Konukoti á einu ári, alls 101 kona í rúmlega þrjú þúsund gistinætur árið 2016. Má því ætla að neyðin sé mikil og framtak Freyjanna úr Skagafirði lofsvert.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir