Kiwanisklúbburinn Freyja safnaði rúmum 400 þúsund krónum

Við afhendingu styrksins sem fram fór í Gestastofu sútarans. Fv. Regína Valdimarsdóttir, systurnar Sigríður og Herdís Káradætur, foreldrar Jökuls, Anna Baldvina og Nökkvi Már og loks Oddný ragna Pálmadóttir. Mynd: PF.
Við afhendingu styrksins sem fram fór í Gestastofu sútarans. Fv. Regína Valdimarsdóttir, systurnar Sigríður og Herdís Káradætur, foreldrar Jökuls, Anna Baldvina og Nökkvi Már og loks Oddný ragna Pálmadóttir. Mynd: PF.

Á Sveitasælu, sem haldnir voru í ágúst, stóð Kiwanisklúbburinn Freyja fyrir söfnun til styrktar Jökli Mána, sem fæddist sjö vikum fyrir settan tíma, þann 14. júlí síðastliðinn. Hann fæddist með hjartagalla og þarf því að fara til Lund í Svíþjóð í aðgerð en hjartagallar fylgja gjarnan Downs-litningargöllum líkt og hjá Jökli. Á dögunum afhenti klúbburinn foreldrunum, Önnu Baldvinu Vagnsdóttur og Nökkva Má Víðissyni, afrakstur söfnunarinnar, samtals 448.493 krónur.

Anna Baldvina segir styrkinn koma sér einstaklega vel. „ Við þökkum af auðmýkt þann stuðning og velvilja sem við höfum fengið. Jökull Máni mun fara í opna hjartaaðgerð í Lundi í Svíþjóð og við vitum ekki hversu lengi við munum þurfa að dvelja úti. Aðgerðinni verður trúlega flýtt miðað við fyrstu forsendur, en við vitum ekki nákvæmlega hvenær hún er áformuð,“ segir Anna sem vill koma á framfæri miklu þakklæti fyrir öllum þeim stuðningi og hlýhug sem fjölskyldan hefur fengið. „Einnig viljum við koma þökkum til vökudeildar LSH, fyrir allt það sem þau hafa gert fyrir okkur og Jökul Mána! Starfsfólki vökudeildar fáum við aldrei full þakkað.“

Stofnuð hefur verið styrktarsíða á Facebook sem nálgast má HÉR 

Tengd frétt: Söfnun til styrktar Jökli Mána

 

Fleiri fréttir