Kjarnafæði og Norðlenska í eina sæng
Eigendur Kjarnafæðis og Norðlenska hafa komist að samkomulagi um helstu skilmála varðandi samruna félaganna. Starfsemi Kjarnafæðis fer að mestu fram á Svalbarðseyri auk þess sem félagið á SAH-Afurðir á Blönduósi, sláturhús og kjötvinnslu, og um þriðjungshlut í Sláturfélagi Vopnfirðinga. Norðlenska rekur stórgripasláturhús og kjötvinnslu á Akureyri, en slátrun og afurðavinnsla sauðfjár er á Húsavík. Einnig rekur Norðlenska sláturhús á Höfn í Hornafirði og söluskrifstofu í Reykjavík.
„Með samruna félaganna eru eigendur að bregðast við breytingum í rekstrarumhverfi matvælaiðnaðar undanfarin misseri. Það er mat eigenda félaganna að sameinað félag sé betur í stakk búið til að veita viðskiptavinum sínum og birgjum, ekki síst bændum, góða þjónustu á samkeppnishæfu verði“, segir í tilkynningu.
Félögin tvö hafa átt í viðræðum um samruna frá því á haustmánuðum 2018 . Samkomulag um samruna félaganna er með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda og hluthafafundar eiganda Norðlenska, Búsældar, sem er í eigu um 500 bænda á Íslandi. /FE