KK Restaurant býður upp á heimsendingar í Skagafjörðinn

KK Restaurant á Sauðárkróki. MYND AF FB-SÍÐU KK
KK Restaurant á Sauðárkróki. MYND AF FB-SÍÐU KK

Síðastliðinn laugardag bryddaði KK Restaurant á Króknum upp á þeirri nýbreytni að bjóða upp á heimsendingar í sveitina á mat af seðli. „Já, við prufuðum þetta með dúndur tilboði og það gekk ágætlega og það sem var skemmtilegast var hvað fólk var þakklátt fyrir þessa nýbreytni,“ segir Tómas Árdal hjá KK Restaurant í samtali við Feyki. „Leikurinn verður endurtekinn nú á laugardaginn en þá munum við fara til Hofsóss með viðkomu á Hólum, en allar upplýsingar má finna á Facebook-síðu KK.“

„Í þessari tilraun ákváðum við að fara Skagafjarðarhringinn og þeir sem væru utan hans gátu sótt á ákveðna staði í hringnum en á leiðinni þá afhentum við heim að hverjum bæ,“ segir Tommi. „Við höfum verið að taka upp nýtt greiðslukerfi á heimasíðunni okkar (pöntunarsíðunni) kkrestaurant.is  og þetta byggist á því að fólk panti á heimasíðunni og greiði með korti. Það er ekki hægt að greiða eftir á. Þetta gerum við til að spara tíma fyrir sendlana okkar og það má segja að það var mjög heppilegt að í febrúar vorum við að prufa þetta kerfi og það er farið að svínvirka. Við erum samt ennþá að svara í símann, á þeim tíma sem hægt er að panta, til að aðstoða fólk við að panta á netinu ef það þarf aðstoð, en meiningin er sú að í framtíðinni verði eingöngu pantað á netinu.“

Verður áframhald á þessari útkeyrslu í Skagafjörðinn? „Okkur langar að þróa þetta áfram og ætlum að aka núna á laugardaginn á Hóla og út á Hofsós og þeir sem eru lengra í burtu geta sótt pantanirnar á gatnamótin við Hofsós. Á leiðinni fá allir afhent heim að bæ. Á miðvikudaginn í næstu viku, síðasta vetrardag, þá ætlum við að fara alla leið fram á Steinsstaði og sama gildir þar; ef fólk er lengra frá þá getur það sótt þangað en á leiðinni á Steinsstaði fá allir afhent heim að bæ.“

Eru fleiri nýjungar í deiglunni? „Já, í gær vorum við að byrja með leik sem stendur til mánaðamóta á því sem pantað er, þannig að þeir sem panta á netinu fara í slembiúrtak og um mánaðamótin drögum við út þrjá heppna vinningshafa sem fá hver um sig gjafabréf fyrir 3ja rétta máltíð að eigin vali fyrir tvo á KK Restaurant. Og svo er aukavinningur fyrir þann sem pantar verðmætustu pöntunina. Það er gjafabréf fyrir 3 rétta máltíð fyrir 4 út að borða á KK Restaurant, en þetta gildir þegar við  getum opnað aftur fyrir almenna þjónustu á veitingastaðnum.

Nú hafa samkomubann og aðrir fylgifiskar Covid19 reynst ferðaþjónustunni og veitingabransanum afar erfiðir. Hvað hefur helst breyst hjá ykkur þessar síðustu vikur? „Við brugðumst við samkomubanninu á ýmsan hátt en við létum þjónustu okkar við leikskólann hafa algeran forgang til að byrja með og erum með tvö lið sem skiptast á sitt hvora vikuna við að sinna því og hitta hvort annað ekki neitt. Við þurftum að loka veitingastaðnum og var það miður en það var samt orðið þannig að það voru engir gestir að koma í mat og það er sjálflokað þegar engir koma að borða,“ segir Tommi. 

Auk þess að reka KK Restaurant reka Tommi og Selma kona hans Hótel Tindastól og Gistiheimilið Miklagarð. „Í gistingunni hefur orðið verulegur samdráttur eða réttara sagt hrun. Aðgerðir stjórnvalda hafa komið sér vel fyrir okkur og hafa margir starfsmenn farið í hlutastarf hjá okkur á meðan þetta gengur yfir,“ segir Tommi og bætir við að lokum: „Sumarið verður mjög erfitt, það er ekki spurning, og erfitt að skipuleggja eitthvað ennþá  gagnvart mannhaldi og svoleiðis. Best er að fylgjast með okkur á Facebook en við póstum öllu þar,“ segir hann og á þá m.a. við upplýsingar um tilboð og heimsendingaþjónustu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir