Kolefnisspor Norðurlands vestra greint

Nýlega undirrituðu Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) samning um vinnu við stöðugreiningu á kolefnisspori Norðurlands vestra í heild snni. Verkefnið felur í sér úttekt á helstu orsakavöldum kolefnislosunar, svo sem í samgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði og neyslu íbúa. Eftir að þær niðurstöður eru fengnar verða möguleikarnir greindir á minnkun á losun kolefnis annars vegar og hins vegar á því hvaða mótvægisaðgerðir koma helst til greina í landshlutanum. Frá þessu er sagt á vef SSNV.
Það er Umhverfisvöktun ehf. (Environice) í Borgarnesi, með Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðing í fararbroddi, sem vinnur að verkefninu fyrir SSNV og er það áhersluverkefni Sóknaráætlunar landshluta fyrir árin 2018 og 2019.
„Það er von SSNV að með verkefninu verði stigið mikilvægt fyrsta skref í átt að markvissri kolefnisjöfnun svæðisins sem með tímanum skapi tækifæri er koma til með að styrkja byggð í landshlutanum,“ segir á vef SSNV.
Þess má geta að SSNV eru fyrstu landshlutasamtökin á Íslandi til að láta gera slíka greiningu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.