Komdu með seinnipartinn Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga

Frá setningu Sæluviku 2018: Mynd: PF
Frá setningu Sæluviku 2018: Mynd: PF

Það bregst ekki að þegar glittir í vorið og stutt er í Sæluviku Skagfirðinga lyftist brúnin á skáldagyðjunni, sem er merki þess að vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga er einnig á næsta leiti.

Kunnugir segja að nú sé komið að 44. keppninni en henni var komið á árið 1976. Reglurnar eru sem fyrr einfaldar og góðar; annars vegar að botna fyrirfram gefna fyrriparta og eða semja vísu um ákveðið málefni. Ekki er nauðsynlegt að botna allt og einnig er í lagi að senda bara inn vísu. 
Fyrri partarnir koma úr öllum áttum að þessu sinni en sjá má kunnuglegt stef í þeim. Júróvisíon, vorið, stórafmæli KS og kannski smá Sæluvikustemning.

Sigri hatrið, held ég að
heimurinn muni farast. 

Vorið nálgast, vinda lægir
vermir sólin dal og grund.

Þriðji tugur yfir öld
árin KS telja. 

Léttur í spori leik ég mér
lausgyrtur að vanda. 

Svo í restina er ein akkúrat ætlaður þér:

Kveða skulum kostabrag,
komdu með seinnipartinn.

Umsjónarmaður vísnakeppninnar ætlar einungis að takmarka vísnaþrautina við héraðið að þessu sinni svo þið fáið, lesendur góðir, að spreyta ykkur á því að setja saman vísu um Skagafjörð.

Veitt verða tvenn peningaverðlaun, annars vegar fyrir bestu vísuna og hins vegar fyrir besta botninn. Ekki er skilyrði að allir fyrripartar séu botnaðir og einnig er leyfilegt að senda einungis vísu.

Vísur og botnar verða að hafa borist Safnahúsi Skagfirðinga, Faxatorgi 550 Sauðárkróki í síðasta lagi miðvikudaginn 24. apríl nk. Nauðsynlegt er að vísurnar séu merktar dunefni, en rétt nafn og símanúmer fylgi með í lokuðu umslagi. Einnig er hægt að senda vísur og botna í tölvupósti á netfangið bokasafn@skagafjordur.is og verður þá viðkomandi höfundi gefið dulnefni, ef það fylgir ekki með, áður en vísunar fara til dómnefndar.

Úrslit verða tilkynnt sunnudaginn 28. apríl við setningu Sæluviku Skagfirðinga, í Safnahúsinu á Sauðárkróki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir