Könnun á stöðu fjarskiptamála í dreifbýli á Norðurlandi vestra

Samgöngu- og innviðanefnd SSNV stendur nú fyrir könnun á fjarskiptasambandi í dreifbýli á starfssvæði samtakanna. Nefndin var skipuð á haustþingi SSNV í október og hefur það hlutverk að vinna að upplýsingaöflun vegna samgönguáætlunar SSNV með starfsmönnum samtakanna. Á vef SSNV segir að til þess að hægt sé að setja saman raunhæfar áætlanir um uppbyggingu samgöngumannvirkja og annarra innviða í landshlutanum þurfi að liggja fyrir ítarlegar upplýsingar og greining á þáttum varðandi samgöngu- og innviðamál.

Á vef SSNV segir ennfremur að hluti af vinnu nefndarinnar sé að skoða raunverulega stöðu fjarskipta á starfssvæðinu. Nokkuð góðar upplýsingar liggi fyrir um stöðu mála í þéttbýli en staðan í dreifbýlinu er ekki alveg eins ljós. Mælingar Póst- og fjarskiptastofnunar, sem fyrir liggja, gefa ekki raunsanna mynd af stöðu mála þar sem þær eru gerðar við bestu mögulegu skilyrði á þjóðvegi eða stofn/tengivegi. Staðan getur verið gjörólík þegar komið er heim til bæja.

Nú hefur verið sent út bréf sem berast á til allra bæja á starfssvæðinu í þeim tilgangi að afla betri upplýsinga um hver raunveruleg staða fjarskiptamála í dreifbýli er. Bréfið inniheldur könnun á fjarskiptasambandi á viðkomandi bæ þar sem spurt er um gsm-samband, ljósleiðara, 3G og 4G. Einnig er spurt um stöðu mála á helstu vinnusvæðum jarðarinnar. 

Boðið er upp á að könnuninni sé svarað á pappír eða á rafrænu formi. Rafrænu útgáfuna er að finna hér: http://www.ssnv.is/is/um-ssnv/konnun

Nóg er að eitt svar berist frá hverjum bæ. Það er hins vegar mikilvægt að svör berist frá sem flestum bæjum svo að sú mynd sem upp verður dregin af stöðu fjarskiptamála í dreifbýli á Norðurlandi vestra verði eins rétt og kostur er. 

Nánari upplýsingar veitir Sólveig Olga Sigurðardóttir, solveig@ssnv.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir