Körfuboltadeild Hvatar stofnuð

Guðrún Björk og Lee Ann. AÐSEND MYND
Guðrún Björk og Lee Ann. AÐSEND MYND

Nú nýverið tók gott fólk á Blönduósi sig saman og stofnaði körfuboltadeild innan Hvatar. Formaður deildarinnar er Lee Ann Maginnis en í spjalli við Feyki segir hún meðal annars að stofnendur séu allt mæður barna sem æfðu körfubolta hjá Helga Margeirs (Körfuboltaskóla Norðurlands vestra) síðastliðinn vetur og er stjórnin einungis skipuð konum. Æfingar verða tvisvar í viku í vetur í tveimur aldurshópum.

Hvað kemur til að stofnuð hafi verið körfuboltadeild Hvatar? „Stofnunin á deildinni á sér smá sögu. Fyrir um tveimur árum fór Körfuboltaskóli Norðurlands að venja komur sínar á Blönduós með æfingar fyrir börn og unglinga. Guðrún Björk Elísdóttir, einn af stofnendum deildarinnar,  ákvað að setja sig í samband við Helga Margeirs síðasta haust og kanna hvort hann gæti haldið úti reglulegum æfingum á Blönduósi. Það gekk upp og það fór svo að Helgi kom á Blönduós tvisvar í viku og þjálfaði krakkana fram að COVID. Guðrún aflaði styrkja fyrir fyrstu önninni sem gerði það að verkum að hægt var að bjóða upp á fríar æfingar fram að jólum,“ segir Lee Ann. 

Hverjir stóðu að stofnun deildarinnar? „Stofnendur deildarinnar eru allt mæður barna sem æfðu körfubolta hjá Helga síðastliðinn vetur. Það var kominn tími á að gera þetta formlega og þær ákváðu að keyra þetta bara af stað.  Ég sjálf kem nú bara inn í þetta á lokametrunum til að sjá um formlegheitin í kringum það að stofna deildina og  fæ svo þann heiður að vera fyrsti formaður deildarinnar fram að aðalfundi. Stjórnin er einungis skipuð konum. 

Ég hef þannig séð enga þekkingu eða reynslu á körfubolta og hef aldrei æft hann sjálf, en er ágæt í því að koma svona verkefnum á stað og leiða þau fyrstu skrefin. Ég er hins vegar mjög dugleg við það að horfa á körfubolta. Vorið 2018 slysaðist ég inn í Síkið í úrslitakeppninni og náði tveimur heimaleikjum. Það var í fyrsta skipti sem ég hafði horft á keppnisleik í körfubolta og ég á meðal áhorfenda á staðnum. Um haustið kom Helgi með Körfuboltaskólann á Blönduós og gaf krökkunum miða á leik hjá Tindastól í fylgd með fullorðnum. Til að gera langa sögu stutta þá hef ég ásamt syni mínum mætt á flest alla heimaleiki hjá Tindastóli karla megin síðan þá.“ 

Er mikill áhugi á körfubolta á Blönduósi og nágrenni? „Það er mikill áhugi á körfubolta á svæðinu og hefur verið síðustu ár. Það hefur samt ekki verið hægt að æfa hann hér í langan tíma. Við höfum líka verið heppin með hversu mikil körfuboltamenningin er á Sauðárkróki og það smitast yfir fjallið. Helgi hefur líka sinnt þessu mjög vel með Körfuboltaskólanum og krakkarnir fengist að kynnast því frábæra íþróttafólki sem er í körfunni með Stólunum. Karlaliðið kom m.a. einu sinni við á æfingu á leið í leik fyrir sunnan og það gerir mikið fyrir krakkanna. 

Einhverjir iðkendur hafa keppt undir merkjum Tindastóls og svo náðum við í eitt Hvatarlið fyrir Króksamótið síðasta vetur sem var mjög skemmtilegt. 

Á ekki stærra svæði en á Norðurlandi vestra er mikilvægt að geta haldið úti öflugu starfi í fjölbreyttum íþróttagreinum og að við séum í samstarfi við önnur íþróttafélag á svæðinu. Við erum líka svo heppin með að hafa FNV og fótbolta- og körfuboltaakademíuna sem vonandi með þessu skilar fleiri nemendum inn í akademíuna.“ 

Verða fastar æfingar í vetur? „Já, það verða æfingar tvisvar í viku fyrir börn og unglinga. Á mánudögum og þriðjudögum frá kl. 19-21. Yngri hópurinn (2009-2012) er kl. 19 og eldri hópurinn (2005-2008) er kl. 20,“ segir Lee Ann að lokum.

Körfuboltadeildin er komin með facebook-síðu https://www.facebook.com/karfahvot og svo er hægt að hafa samband við okkur á netfangið hvotkarfa@gmail.com

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir