Kosning hafin á manni ársins á Norðurlandi vestra

Eins og undanfarin ár stendur Feykir fyrir kjöri á manni ársins. Gefst íbúum á svæðinu og öðrum lesendum Feykis kostur á að velja úr hópi þeirra sem tilnefndir voru af lesendum. Í þetta skiptið bárust sex tilnefningar sem teknar voru til greina. Hægt verður að greiða atkvæði hér á vefnum Feyki.is eða senda atkvæði í pósti á Feykir, Borgarflöt 1, 550 Sauðárkróki. Kosningin er þegar hafin og stendur til kl. 12 á hádegi á nýársdag, 1. janúar.

Tilnefndir eru, í stafrófsröð:

 

Álfhildur Leifsdóttir Sauðárkróki
Álfhildur hefur á árinu hlotið fjölda viðurkenninga, meðal annars frá Apple, er einstaklega framtakssöm í fræðslu fyrir kennara um tækni í skólastarfi og hefur haldið fjölda námskeiða og fyrirlestra bæði innanlands og utan. Í sveitarstjórn Skagafjarðar gerir hún góða hluti með því að velta ýmsum hlutum upp, sem hafa ekki komið á yfirborðið. Þá gerir hún góða hluti í stjórn SSNV sem og annars staðar þar sem hún kemur að málum. 

 

 

Ársæll Daníelsson Hvammstanga
Þar sem stutt er síðan mesta óveður í háa herrans tíð reið yfir Norðurland vestra er tilvalið að tilnefna Ársæl Daníelsson, rafvirkja á Hvammstanga, en hann lagði sig í hættu við að reyna að koma samborgurum sínum í tengsl við umheiminn með níu tíma ferð í brjáluðu veðri sem tekur einungis hálftíma á venjulegum degi. Ferðaðist hann í snjóbíl sem a.m.k. valt einu sinni á leiðinni en hann leitaði skjóls til að ná sér í hita og hélt svo áfram. Alvöru maður!

 

 

Hólmfríður Sigrún Óskarsdóttir Blönduósi
Hólmfríður Sigrún Óskarsdóttir má ekkert aumt sjá, annast föður sinn sem á við veikindi að stríða. Hún sinnir þremur launuðum störfum auk heimilisstarfa en einhvern veginn virðist hún finna fleiri klukkutíma í sólarhringnum en aðrir. Vel að titli um Mann ársins komin með sínum mikla dugnaði og eljusemi í annarra þágu.

 

  

 

Sigurður Hansen
Sigurður Hansen í Kringlumýri er vel að því kominn að vera valinn maður ársins á Norðurlandi vestra. Uppbyggingin á Kakalaskála er stórmerkilegt þrekvirki og ekki síður eitt merkasta og mesta útilistarverk landsins, til minningar um Haugsnesbardaga. Í sumar opnaði hann sýningu fjórtán alþjóðlegra listamanna sem sköpuðu margbrotin verk um hina stórkostlegu sögu Sturlunga, í Kakalaskála sem ber heitið Á söguslóð Þórðar kakala. Svo í dauða tímanum gaf hann út á haustdögum ljóðabókina Glóðir. 

Valdimar Guðmannsson Blönduósi
Valdimar hefur verið ötull við að markaðssetja og kynna lambakjöt með alls kyns uppákomum og skrifum og án efa gert mikið gagn í markaðssetningu á þessari mikilvægu landbúnaðarvöru frá Norðurlandi vestra. Þá hefur hann einnig verið öflugur við að styðja við ýmis önnur samfélagsverkefni eins og t.d. lagfæringar á umhverfi kirkjugarðsins á Blönduósi o.fl. Það er vegna baráttumanna eins og Valdimars að lífið í litlum þorpum úti á landi sem eiga í vök að verjast vegna fólksflótta hefur haldið velli og jafnvel tekist að snúa vörn í sókn.

 

Þröstur Heiðar Erlingsson Birkihlíð
Þrastar verður lengi minnst fyrir framlag sitt og baráttu við valdakerfið, ásamt Sveini Margeirssyni fv. forstjóra Matvís, þar sem reynt er að bæta lagaumhverfi fyrir bændur sem vilja auka framleiðni búa sinna og bæta gæði lambakjöts. Markmiðið er að koma á löglegri starfsemi svokallaðra örsláturhúsa í landinu bændum og neytendum til heilla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir