Kótilettur – grísa og lamba - uppskriftir

Uppskrift og mynd tekin af nutiminn.is
Uppskrift og mynd tekin af nutiminn.is

Hver elskar ekki kótilettur..... hér koma tvær uppskriftir fyrir þá sem langar að prufa eitthvað nýtt með kótiletturnar annað en að raspa þær:)

UPPSKRIFT 1
Grísakótilettur í rjómalagaðri hvítlauks-sveppasósu

    grísakótilettur
    1 tsk. papriku krydd
    1 tsk. hvítlauks krydd
    salt og pipar eftir smekk
    2 msk. smjör
    2 msk. ólívuolía

Aðferð: Blandið paprikukryddi, hvítlaukskryddi, salti og pipar saman í skál. Þerrið kótiletturnar með eldhúspappír og kryddið þær svo rausnarlega með kryddblöndunni. Hitið smjör og ólívuolíu á pönnu og steikið kjötið í um 3-5 mín. á hvorri hlið eða þar til þær hafa brúnast vel á báðum hliðum. Takið af pönnunni og leggið til hliðar.

Sósan:
    2 dl sneiddir sveppir
    4-5 hvítlauksgeirar rifnir niður
    1 tsk. ítalskt krydd
    3 ½ dl rjómi
    125 ml kjúklingasoð
    1 msk. fersk söxuð steinselja
    salt og pipar eftir smekk

Aðferð: Notið sömu pönnu og steikið sveppina þar til þeir verða fallega gylltir. Bætið þá hvítlauk, steinselju og ítölsku kryddi saman við. Þá næst kjúklingasoði og rjóma. Hrærið vel og leyfið þessu að malla í 3-4 mín eða þar til sósan fer að þykkna. Kryddið til ef þarf. Færið kótiletturnar yfir á pönnuna og leyfið þeim að malla í sósunni í 2-3 mín. Toppið með extra steinselju og berið fram strax. Njótið! Uppskrift og mynd tekin af nutiminn.is

UPPSKRIFT 2  
Lambakótilettur í Caj P

    Um 1,3 kg af lambakótilettum
    Caj P Original grillolía

Aðferð: Penslið kótiletturnar vel með grillolíu og leyfið þeim að standa við stofuhita í að minnsta kosti klukkustund áður en þær eru grillaðar. Grillið á vel heitu grilli og penslið 1-2 sinnum með grillolíu á meðan.

Grænmeti á grillið:
    1 stór sæt kartafla (um 300 g)
    6-8 stk. sveppir
    8 stilkar ferskur aspas
    ½ gul paprika
    ½ rauð paprika
    ½ laukur
    Filippo Berio ólífuolía
    salt, pipar, hvítlauksduft,
    lambakjötskrydd

Aðferð: Flysjið og skerið sætu kartöfluna niður í litla teninga (um 1×2 cm). Skerið allt annað grænmeti gróft niður. Setjið allt saman á grillpönnu, vel af ólífuolíu yfir og kryddið eftir smekk. Grillið á meðalháum hita í um 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar í gegn, hrærið reglulega í á meðan.

Grillsósa:
    170 g Heinz majónes
    70 g Philadelphia rjómaostur
    ½ sítróna (safinn)
    2 rifin hvítlauksrif
    1 msk. saxaður graslaukur
    1 msk. Heinz Sweet BBQ sósa
    1 msk. sykur
    1 tsk. salt

Aðferð: Pískið allt saman í skál þar til kekkjalaust. Geymið í kæli fram að notkun.

Uppskrift og mynd tekin af gotteri.is

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir