Krakkarnir fá að lifa atvinnumannalífi í viku

Síðastliðinn mánudag hófust Körfuboltabúðir Tindastóls á Sauðárkróki sem standa til föstudags. Í búðirnar eru skráðir rúmlega 40 krakkar úr 14 félögum á aldrinum 12 til 16 ára. Stór hluti af þessum krökkum eru í fullu fæði og húsnæði á Hótel Miklagarði. Helgi Freyr Margeirsson er yfirþjálfari körfuboltabúðanna og átti blaðamaður Feykis samtal við hann er hann heimsótti búðirnar fyrr í dag.

„Markmiðið fyrst og fremst er að skapa gott umhverfi fyrir krakkana til þess að einbeita sér að körfubolta í heila viku, þetta er bara númer eitt, tvö og þrjú, þau eru að lifa atvinnumannalífi í raun. Þau eru að fá frábæra þjálfun og þau eru að fá hana í toppumhverfi.“

Helgi stendur ekki einn að þjálfuninni því með honum er einvalalið þjálfara. Má þar nefna Ísak Óla Traustason, Árna Eggert Harðarson, Sigurð Gunnar Þorsteinsson, Söru Rún Hinriksdóttur, Friðrik Hrafn Jóhannsson, Örvar Frey Harðarson, Bjarki Ármann Oddsson og Snædísi Árnadóttur sem sér einnig um verkefnastjórn ásamt Evu Rún Dagsdóttur.

„Fyrir okkur þjálfarana erum við að nýta okkar þekkingu og reynslu, læra af hvor öðrum sem er líka mikilvægt fyrir okkur og svo fyrir klúbbinn og bæjarfélagið. Þetta er í rauninni bæði frumsýning og generalprufa fyrir framtíðina finnst mér, því þetta er eitthvað sem koma skal.“

„Við munum vera áfram með Körfuboltabúðir Tindastól næstu árin af því að við höfum allt til alls hérna og miðað við það hvernig þetta er að ganga hérna og það sem að maður hefur heyrt frá foreldrum sem eru hérna með krakka, að þá erum við að gera eitthvað alveg mjög gott,“ segir Helgi


Hvernig hafa Körfuboltabúðir Tindastóls gengið hingað til?
„Frábærlega, það er bara eitt orð. Ég get alveg viðurkennt það að ég var örlítið stressaður þarna aðfararnótt mánudagsins fyrir því hvernig við myndum keyra þetta áfram en svo bara þegar við vorum mætt í húsið og fórum aðeins yfir hópinn og vorum búin með kynninguna, þá bara rúllaði þetta. Þegar maður er með svona gott fólk í kringum sig, þá ganga hlutirnir bara einfaldlega vel og krakkarnir eru bara að skila sínu þannig að það er ekki hægt að biðja um neitt meira.“

Helgi segir að stefnt sé að því að halda búðirnar árlega héðan í frá. Hér sé allt til staðar á einum og sama blettinum og öll aðstaða sé eins og best verður á kosið. 

/SMH

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir