Kristjana og Svavar Knútur fóru á kostum

Kristjana og Svavar Knútur léku á alsoddi í Gránu. MYNDIR: ÓAB
Kristjana og Svavar Knútur léku á alsoddi í Gránu. MYNDIR: ÓAB

Í gærkvöldi fóru fram stórmagnaðir tónleikar í Gránu en þar komu fram þau Kristjana Stefáns og Svavar Knútur og heilluðu viðstadda upp úr skónum. Þau fluttu að mestu lög af nýútkomnum geisladiski sem kallast Faðmlög og er stútfullur af snilld, gömlu í bland við nýtt og gleði og fegurð. 

Mæting var fín í litla snotra Gránusalinn og listafólkið hafði orð á því að hljómurinn væri hreint frábær í gamla timburklædda kaupfélagshúsinu við Aðalgötuna – með neftóbakskornin föst milli gólffjalanna eins og Svavar Knútur orðaði það.

Auk nokkurra frumsaminna eðallaga voru flutt lög eftir Sigfús Halldórsson, Stevie Nicks, Björn og Benny, Jón Ásgeirsson, Ladda og kinkað var kolli til Ellu Fitzgerald, Daniels Johnston og Böðvars Guðmundssonar. Flutningurinn var magnaður og það stóð ekki í þessu fólki að tjá sig skemmtilega á milli laga, fimmaurabrandararnir flugu og sömuleiðis fínni sögur. Bæði eru þau alveg fantagóðir söngvarar og Svavar Knútur svo flinkur á gítarinn að Gunni á Löngumýri ætlaði beint heim að brenna sinn... eða a.m.k. einn af þeim.

Tónleikar framundan í Skagafirði

Það er líf á tónlistarsviðinu í Skagafirði og nú í júlí verður mikið um að vera. Þeir tvíburabræður Ingi Sigþór og Róbert Smári Gunnarssynir poppa upp í Gránu annað kvöld, föstudaginn 10. júlí, með tónleika. Þá mætir KK úr Reykjavík á KK á Sauðárkróki. Það er semsagt hinn sívinsæli Kristján Kristjánsson sem mætir með gítarinn og treður upp á KK restaurant þann 17. júlí og slær á fyrsta streng kl. 21:00. Svo er Ásgeir Trausti á ferð um landið ásamt Júlíusi vini sínum. Þeir spila í Sauðárkrókskirkju fimmtudagskvöldið 23. júlí kl. 20:00 en þetta eru sennilega fyrstu tónleikarnir sem þeir félagar spila á Króknum. Þeir verða á heimaslóðum í Félagsheimilinu Hvammstanga kvöldið áður.

Ekki er ólíklegt að eitthvað vanti í þessa upptalningu og margir fleiri stígi á stokk vítt og breitt um Norðurland vestra. Fólk er hvatt til að senda Feyki línu ef það þarf að minna á viðburði á svæðinu ;o)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir