Króksmót 2019

Það verður mikið fjör um helgina á Króksmóti. MYND:ÓAB
Það verður mikið fjör um helgina á Króksmóti. MYND:ÓAB

Daganna 10. og 11. ágúst verður haldið hið árlega Króksmót. Mótið er haldið í 33. skipti og var mótið haldið fyrst árið 1987 og hefur mótið stækkað heilmikið frá þeim tíma. Króksmótið í ár verður með sama eða svipuðu sniði og fyrri ár. Þetta er mót fyrir stráka í 6. og 7. flokki. Feykir hafði samband við Helgu Dóru Lúðvíksdóttur sem er í stjórn Knattspyrnudeildar Tindastóls.   

Við eigum von á nokkrum fjölda gesta en þetta verður þó ekki fjölmennasta mótið til þessa. Þátttakendur verða um 680 frá 20 félögum víðsvegar af landinu auk okkar heimaliðs að sjálfsögðu. Þetta mót er aðeins stærra en Landsbankamótið sem við héldum í júní en svipaður fjöldi og var á mótinu 2018.

Þetta er fjöldi sem við eigum auðvelt með að taka á móti hvað varðar gistingu og annað húsnæði - þessi mót mega heldur ekki verða of stór, þá þrengir að gistingu og verður of langt á milli leikja.

Það að halda svona fjölmennt mót krefst mikils undirbúnings og skipulags. Einnig krefst það fjölda sjálfboðaliða því það eru mörg verkefni og margar vaktir sem þarf að manna yfir þessa helgi. Það eru því mjög margir sem koma að þessu með félaginu, iðkendur, foreldrar og aðrir velunnarar og án þeirra væri þetta ekki hægt. En við viljum auðvitað halda þessum mótum gangandi fyrir okkar heimakrakka - það er gaman að fá svona stórt fótboltamót í heimabyggð og fá að taka þátt.

Sumarmótin eru stærstu fjáraflanir deildarinnar og eru því mikilvægur hlekkur í að halda úti því starfi sem hér er unnið. Það eru öflugir bakhjarlar sem styrkja þessi mót.

Aðal styrktaraðili Króksmótsins er - eins og fyrri ár - Fisk-Seafood.

Dagskráin er hefðbundin. Þetta byggist allt á því að fá að spila fótbolta og helst sem mest. Það hefur gengið vel að skipuleggja leikjaniðurröðun með aðstoð Torneopal og Heiðars, einnig er Jónsi fráfarandi framkvæmdastjóri stór partur í þeirri skipulagningu.

Hoppukastalar verða á svæðinu og hefðbundin kvöldvaka á laugardagskvöldið.

Svo er bara að vona að spáin verði okkur örlítið meira í hag og að það haldist þurrt.

Velkomin á Króksmót 2019.

Segir Helga Dóra að lokum.

/EÍG

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir