Króksmótið fer fram um helgina

Séð yfir knattspyrnuvellina á Króknum sumarið 2021. MYND: JÓN ARNAR P.
Séð yfir knattspyrnuvellina á Króknum sumarið 2021. MYND: JÓN ARNAR P.

Það virðist fátt geta komið í veg fyrir að Króksmótið í knattspyrnu fari fram á Sauðárkróki um helgina. Þetta er í fyrsta skipti síðan 2019 sem mótið fer fram en fresta þurfti Króksmóti 2020 og 2021 vegna kórónuveirufaraldursins. Gert er ráð fyrir að 92 lið frá 19 félögum taki þátt í mótinu og eflaust með jákvæðnina í fyrirrúmi því það er gaman á Króksmóti.

Reiknað er með um 500 þátttakendum í 6. og 7. flokki drengja en það er heldur færra en síðustu árin sem mótið fór fram. „Það er bara nokkuð viðunandi miðað við að mótið hefur ekki verið haldið í ár útaf þeirri brellnu og bröndóttu,“ sagði Sæþór Már Hinriksson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar, í samtali við Feyki og vísar þar í Covid-19 veiruna.

Mótið verður með hefðbundnu sniði en aðspurður út í hvort Tívoliið sem verður á Króknum um helgiina sé á vegum Tindastóls segir Sæþór svo ekki vera. „Bara frábært að fá Tívolí í bæinn, sérstaklega þegar hann er fullur af fólki,“ segir Sæþór. Tívolíið er þegar komið í bæinn og verður staðsett á flötinni sunnan við verknámshús FNV, til móts við samlagið.

Sæþór þóttist koma af fjöllum þegar Feykir innti hann eftir veðurútliti helgarinnar. „Ég hef ekki lagt það í vana minn að skoða veðurspár, vona bara það besta en bý mig undir það versta,“ sagði kappinn en það ætti þó að gleðja þátttakendur og gesti að útlit er fyrir ágætt fótboltaveður á Króknum, um 15 stiga hita og skagfirskt logn með örlitlum rigningarskúrum annað veifið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir