KS kaupir Sláturhúsið á Hellu og Kjötbankann í Hafnarfirði

Kaupfélag Skagfirðinga og Þorgils Torfi Jónsson hafa undirritað kaupsamning um kaup KS á 60% hlut í Sláturhúsinu á Hellu hf. og 60% hlut í Skanka ehf. (Kjötbankinn). Fyrir á Slátuhúsið á Hellu hf. 40% hlut í Kjötbankanum.

Sláturhúsið á Hellu ehf. er vel tækjum búið stórgripasláturhús og staðsett í öflugu landbúnaðarhéraði. Stefnt er að því að efla verulega slátrun og úrvinnslu á nautgripa- og hrossaafurðum og auka enn frekar þjónustu við bændur á Suðurlandi. Það mun leiða af sér fjölgun starfa í nánustu framtíð.

Kaupfélag Skagfirðinga rekur öfluga afurðastöð á Sauðárkróki sem slátrar sauðfé, nautgripum og hrossum auk þess að eiga helming í Sláturhúsi KVH ehf. á Hvammstanga á móti Kaupfélagi Vestur Húnvetninga. Með sláturhúsinu á Hellu bætist því við þriðja afurðastöðin sem slátrar nautgripum og hrossum.

Á undanförnum árum hefur Kaupfélag Skagfirðinga lagt áherslu á markaðsstarf erlendis fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir og ljóst er að mikil sóknartækifæri eru fyrir íslenskar afurðir á bestu mörkuðum erlendis. Með þeim viðskiptatengslum sem byggð hafa verið upp og auknu magni sjá menn einnig fram á frekari möguleika til nýtingar og verðmætasköpunar á hliðarafurðum sem falla til í afurðastöðvunum.

Kjötbankinn er þekkt gæðamerki á innlendum markaði og hafa umsvif hans verið að vaxa jafnt og þétt. Áfram verður haldið á þeirri braut.

Kaup þessi eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppnisstofnunar og koma ekki til framkvæmda fyrr en samþykki stofnunarinnar liggur fyrir.

/Fréttatilkynning

Fleiri fréttir