Kvenfélag Skagafjarðar skrifar Guðbjarti

Kvenfélag Skagafjarðar hefur sent Guðbjarti Hannessyni, heilbrigðisráðherra bréf þar sem félagið mótmælir harðlega 

  áformum sem fram koma í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011 og lúta að niðurskurði fjárframlaga til Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki um 30%.

Í erindi kvennanna segir; " Nái þessi áform fram að ganga munu þau hafa í för með sér uppsagnir tuga starfsmanna, mikla þjónustuskerðingu fyrir íbúa Skagafjarðar og mun lakari skilyrði til búsetu sem ekki geta leitt til annars en verulegrar fólksfækkunar.

Augljóst er að tillögur þessar eru ekki sparnaðartillögur eingöngu, heldur fela þær fyrst og fremst í sér tilflutning verkefna frá stofnuninni.  Raunar er það vafasamt hvort tillögurnar leiði til nokkurs sparnaðar þegar tekið er tillit til kostnað vegna atvinnuleysisbóta, ferðakostnaðar, vinnutaps og minnkaðra skatttekna ríkis og sveitarfélagsins.

Kvenfélag Sauðárkróks lítur svo á að hér sé gróflega og ómaklega vegið að íbúum Skagafjarðar og lýsir hryggð yfir þeim viðhorfum sem tillögurnar endurspegla gagnvart íbúum landsbyggðarinnar.

Kvenfélag Sauðárkróks hefur eins og önnur líknarfélög, unnið að því á undanförnum áratugum að styrkja rekstur Heilbrigðisstofnunar Sauðárkróks með tækjakaupum og öðrum framlögum, og  þykir okkur sárt að sjá að það verk hafi verið til einskis unnið.

Við  krefjumst þess að ráðherra endurskoði  áform sín.“

f.h. Kvenfélags Sauðárkróks

Steinunn Árnadóttir formaður                                     Helga Haraldsdóttir ritari

Steinunn Hjartardóttir gjaldkeri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir