Kvennaskólinn fyllist af iðnum konum

Kvennaskólinn á Blönduósi iðar af lífi þessa dagana. Í hverju horni er setið við hannyrðir og handverk. Sumarnámskeið Textílseturs eru í fullum gangi en 35 konur sitja við og eru ýmist að tálga, knipla, baldýra eða prjóna.
Kennarar eru fjórar en námskeiðið eru nær fullskipuð. Nemendur koma að frá suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu, Snæfellsnesi, Akureyri og úr Skagafirði og A-Húnavatnssýslu. Margt er skrafað og skeggrætt, um daginn og veginn en ekki síst um sameiginlegt áhugamál allra; hannyrðir og handavinnu. Bros er á hverju andliti og dæst er yfir dásamleika þess að sitja í ró og næði í þessu dásamlega húsi sem ber með sér andblæ liðinna tíma. Í Kvennaskólanum voru á árum áður kenndar kvennlegar listir, m.a. matreiðsla og háttvísi, en á þessum námskeiðum er ekki eldað en háttvísin er enn við lýði....
 
Framvegis verða námskeiðalotur nokkrum sinnum á ári, en reynsla síðustu daga hefur enn og aftur staðfest að handavinna, heimilisiðnaður og handverk er ánægjuleg og gefandi iðja.

Fleiri fréttir