Kvíðinn í samfélaginu – Ráðstefna á Hólum

Guðbrandsstofnun í samstarfi við Embætti landlæknis, Geðhjálp, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Akureyri og Félag íslenskra músikþerapista standa að ráðstefnu um kvíða. Raðstefnan, sem haldin er á Hólum í Hjaltadal, hefst á morgun og stendur yfir í tvo daga. Að sögn Solveigar Láru Guðmundsdóttur stendur Guðbrandsstofnun að einni ráðstefnu á ári, auk þess að skipuleggja Sumartónleika í Hóladómkirkju á sunnudögum yfir sumarmánuðina og standa að Fræðafundum heima á Hólum tvisvar í mánuði yfir vetrartímann. Undanfarin fjögur ár báru ráðstefnurnar yfirskriftina: Hvernig metum við hið ómetanlega.  Undirtitlarnir þessi fjögur ár voru 2015- náttúran og auðlindirnar, 2016 -menningin, 2017 -trú og lífsskoðun og 2018 -hið góða líf.

„Þar sem þessari ráðstefnuröð var lokið  ræddum við í stjórn Guðbrandsstofnunar hvað væri brýnast að ræða um í samfélagi okkar í dag, en stjórnina skipa auk mín, sem er formaður og fulltrúi Þjóðkirkjunnar, Hjalti Hugason sem er fulltrúi Háskóla Íslands og Erla Björk Örnólfsdóttir sem er fulltrúi Háskólans á Hólum. Við komumst að þessari niðurstöðu eftir nokkrar umræður okkar á milli að kvíðinn í samfélaginu væri brýnt efni að ræða um.

Við höfum alltaf fengið virtar stofnanir þjóðfélagsins til samstarfs við okkur auk þess að fá einhvern úr listgeiranum. Í ár varð úr að fá til samstarfs Landlæknisembættið, Geðhjálp, Háskólann á Akureyri og Háskólann í Reykjavík, auk Félags íslenskra músikkþerapista.

Við höfum komið okkur upp nokkuð sérstöku ráðstefnumódeli, en það er þannig upp byggt að við fáum 20 svokallaða kveikjuhöfunda sem halda 10 mínútna kveikju að umræðum sem standa yfir í 10 mínútur eftir hverja kveikju. Það eru samstarfsaðilarnir sem fá kveikjuhöfundana til liðs við okkur og gerir það vídd þátttakenda mjög mikla,“ segir Solveig.

Hún segir að aðalárangur þessa ráðstefnumódels sé það sem gerist í umræðunum, en í þeim skapast alltaf einhverjir kraftar sem fólk tekur heim með sér.  „Í fyrra fengum við Ævar Kjartansson til að taka saman útvarpsþátt um ráðstefnuna, en nú ætlum við að vera nútímavæddari og höfum fengið Bóas Valdórsson, sálfræðing í Menntaskólanum í Hamrahlíð, til að gera podcast um ráðstefnuna og það sem fram kemur á henni, þannig að árangurinn af umræðunum margfaldast út í himingeiminn.“

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir