Kynningarfundur vegna sýningar tileinkaðri atvinnulífi, menningu og mannlífi í Skagafirði
Ákveðið hefur verið að halda sýningu tileinkaða Atvinnulífi – menningu og mannlífi í Skagafirði, í íþróttahúsinu á Sauðárkróki helgina 24. - 25. apríl næstkomandi. Sérstakur kynningarfundur um verkefnið verður haldinn á Mælifelli mánudaginn 22 mars kl. 12:10. Þar verða, yfir rjúkandi súpu og nýbökuðu brauði, veittar allar nánari upplýsingar varðandi tilhögun, kostnað, kynningarefni, þátttöku í málþingi o.s.frv.
Hugmyndin er að á sýningunni gefist fyrirtækjum, stofnunum, félagasamtökum, þjónustuveitendum og fleiri tækifæri til að kynna íbúum Skagafjarðar og gestum það sem í boði er í Skagafirði þessa helgi í aðdraganda Sæluviku.
Feykir hafði samband við Áskel Heiðar Ásgeirsson sviðsstjóra markaðs- og þróunarsviðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar og spurði um tilkomu sýningarinnar. -Hugmyndin með þessari sýningu er að draga fram þann fjölbreytileika sem hér er í atvinnulífi, þjónustu og mannlífi og bjóða fólki upp á að skoða sem mest af því sem hér er í boði, milliliðalaust. Við leggjum mikla áherslu á að það verður lítill kostnaður fyrir þátttakendur á þessari sýningu og að sjálfsögðu verður ókeypis inn á hana fyrir gesti. Vonandi vilja sem flestir kynna þarna það sem þeir hafa fram að færa, hvort sem það er framleiðsla, þjónusta, félagsskapur, menningarstarf eða bara eitthvað annað.-
Samhliða sýningunni fer fram málþing um atvinnumál og nýsköpun, auk þess sem gefið verður út kynningarblað um Skagafjörð og athafna- og menningarlíf þar, sem ætlunin er að fari um allt land, líkt og gert var 2008. Líklegt er að útvarpsfólk verði á svæðinu og sendi út þætti sína þessa helgi frá sýningunni.
Mikilvægt er að til að vel takist til verði þátttaka á sýningunni almenn og sem allra flest fyrirtæki og félagasamtök sjái tækifæri í að vekja athygli á vörum sínum, þjónustu, menningu eða félagsstarfsemi. -Fyrsta skrefið er að mæta í súpu á Mælifell í hádeginu á mánudag og hlýða á nánari kynningu á verkefninu. Eigi fólk ekki heimangengt er líka hægt að senda mér póst á heidar@skagafjordur.is og fá allar upplýsingar,- segir Áskell Heiðar.