Lækkun hámarkshraða á Sauðárkróksbraut úr 90 km/klst. í 70 km/klst.
Til stendur að lækka hámarkshraða á Sauðárkróksbraut 75-03,04 og 05, (frá brúnni við styttu Jóns Ósmanns að vegamótum Sauðárkróksbrautar og Þverárfjallsvegar) úr 90 km/klst. í 70 km/klst.
Á fundi byggðarráðs Skagafjarðar 2. júní sl. kom fram eftirfarandi beiðni frá Vegagerðinni um að lækka hámarkshraða á eftirfarandi stað. Byggðarráð vísaði erindinu til umsagnar umhverfis- og samgöngunefndar.
„Lagt fram bréf dagsett 26. maí 2021 frá Vegagerðinni varðandi tillögu þjónustusviðs Vegagerðarinnar um lækkun hámarkshraða á Sauðárkróksbraut 75-03, 04 og 05. Um er að ræða lækkun á núgildandi hámarkshraða, 90 km/klst. í 70 km/klst., frá stöð 9200 á kafla 75-03, að stöð 1045 á kafla 75-04 (vegamót Sauðárkróksbrautar og Þverárfjallsvegar). Á Þessum kafla er fjölfarin gönguleið meðfram Sauðárkróksbraut, reiðleiðir þvera veginn á fleiri en einum stað auk þess sem endafrágangur brúarvegriðs uppfyllir ekki kröfur fyrir meiri hraða en 70 km/klst. Einnig sambærileg lækkun hámarkshraða á kafla 75-05 frá stöð 0 að stöð 940. Meðfram þessum kafla er mjög fjölfarin reiðleið sem er mikið notuð við þjálfun hrossa og tamningar. Breytingin þarf samþykki sveitarfélagsins og lögregluyfirvalda svo hún taki gildi.
Byggðarráð samþykkir að vísa erindinu til umsagnar umhverfis- og samgöngunefndar.“
Umhverfis- og samgöngunefnd tók beiðnina fyrir á fundi sínum í dag, 21. júní, og samþykkti hana.
„Vegagerðin leggur fram beiðni til samþykktar hjá Sveitarfélaginu Skagafirði og Lögreglunni á Norðurlandi vestra tillögu vegaþjónustudeildarþjónustusviðs Vegagerðarinnar um lækkun hámarkshraða á Sauðárkróksbraut 75-03,04 og 05.
Tillagan er gerð að beiðni Norðursvæðis Vegagerðarinnar. Helstu rök fyrir lækkuninni eru m.a. niðurstöður úr úttekt á umferðaröryggi þjóðvega í þéttbýli Skagafjarðar.
Nefndin samþykkir tillögur Vegagerðarinnar um lækkum hámarkshraða á Sauðárkróksbraut 75-03, 04 og 05 og bendir á að með þessari breytingu er verið að auka öryggi gangandi, ríðandi og hjólandi vegfarenda en óskar eftir að umferðahraðinn verði einnig merktur á akgrein.“
/SMH