Landgræðsluverðlaun í Dýrfinnustaði

Landgræðsluverðlaunin voru veitt s.l. föstudag við hátíðlega athhöfn í Gunnarsholti. Aðstoðarmaður umhverfisráðherra, Hafdís Gísladóttir, afhenti verðlaunin fyrir hönd umhverfisráðherra. Ein verðlaunin komu í Skagafjörð.

Verðlaunin að þessu sinni hlutu Ársæll Hannesson, Hermann Herbertsson,  Ingólfur Helgason og Unnur Sveinbjörnsdóttir, Sandgerðisbær og Þjórsárskóli. Landgræðsluverðlaunin eru veitt einstaklingum,félagasamtökum og skólum sem unnið hafa að landgræðslu og landbótum. Með verðlaununum vill Landgræðslan vekja athygli á því mikilvæga starfi sem áhugafólk vinnur um land allt.

Ingólfur Helgason og Unnur Sveinbjörnsdóttir, Dýrfinnustöðum í Skagafirði hlutu verðlaun en í dómsorðum segir:

Ingólfur Helgason og Unnur Sveinbjörnsdóttir hófu búskap á Dýrfinnustöðum í Skagafirði árið 1997. Haustið 2000 keyptu þau nágrannajörðina Ytri-Brekkur I. Árið 2001 gerðust Ingólfur og Unnur þátttakendur í verkefninu „Bændur græða landið" og fóru þegar að huga að uppgræðslu og landbótum á Ytri-Brekkum. Síðan þá hefur verið unnið sleitulaust að uppgræðslu þar og notaðar til þess margvíslegar aðferðir. Borinn er á tilbúinn áburður og grasfræ og lífrænn áburður í stórum stíl, bæði heimafenginn og frá nágrannabæjum Einnig hefur verið notuð ónýt ull með heyinu þar sem frostlyftingin er hvað mest. Grasið vex upp úr ullinni og heyinu og myndar þéttan svörð. Land Ytri-Brekkna má nú heita algróið, gróðurvana svæði hafa breyst í uppskerumikið, sjálfbært graslendi. Samhliða landbótum hefur beitarstýring verið til fyrirmyndar og þess gætt að beitin gangi aldrei nærri gróðrinum og uppgræðslusvæðin eru friðuð fyrir beit yfir sumarið.

Fleiri fréttir