Landsbankinn tekur í notkun hraðbanka og þjónusturými á Blönduósi

Birgir R. Rafnsson útibússtjóri, Monika Tischleder, Signý Ósk Richter starfsmenn og Jóhannes Torfason framkvæmdastjóri Ámundakinnar. MYND AF HÚNA.IS
Birgir R. Rafnsson útibússtjóri, Monika Tischleder, Signý Ósk Richter starfsmenn og Jóhannes Torfason framkvæmdastjóri Ámundakinnar. MYND AF HÚNA.IS

Í gær opnaði Landsbankinn nýjan hraðbanka og þjónustuskrifstofu í verslunarkjarnanum að Húnabraut 4 á Blönduósi en húsnæðið er í eigu Ámundakinnar. Í þjónusturýminu mun starfsfólk bankans veita viðskiptavinum á Blönduósi ráðgjöf og aðstoð á þriðjudögum og fimmtudögum, frá kl. 12-15.

„Það er ánægjulegt fyrir okkur sem vinnum með málefni Ámundakinnar að bjóða Landsbankann velkominn til starfa á Húnabraut 4. Það er augljóst hagræði af því að fólk geti nálgast sem fjölþættasta þjónustu undir sama þaki. Þá er og mikilvægt að geta á nýjan leik sótt ráðgjöf og persónulega fjármálaþjónustu á Blönduósi,“ segir í tilkynningu Ámundakinnar á Húna.is.

Í húsnæði Ámundakinnar að Húnabraut 4 er nú margvísleg þjónusta en þar er Kjörbúðin með verslun auk þess sem Vínbúðin, Lyfja, veitingastaðurinn Tene og fleiri eru með þjónustu í húsnæðinu.

Bankaþjónusta hefur breyst mikið

Nú síðari árin var á Blönduósi útibú frá Arion banka en það var sameinað útibúinu á Sauðárkróki vorið 2021 og útibúinu á Blönduósi þá lokað. Það voru íbúar Blönduóss skiljanlega ósáttir með og nú hefur staða þeirra batnað með nýrri þjónustu Landsbankans í bænum. „Bankaþjónusta hefur breyst mikið á undanförnum árum. Flest notum við símann eða tölvuna til að sinna fjármálunum en stundum þurfum við að komast í bankann til að fá ráðgjöf og aðstoð. Með því að opna hraðbanka á Blönduósi og bjóða þar ráðgjöf og þjónustu tvisvar í viku, viljum við bæta þjónustuna við íbúa á Norðvesturlandi og vonumst eftir að sem flestir sláist hóp ánægðra viðskiptavina Landsbankans,“ segir á heimasíðu Landsbankans.

Hraðbankinn verður aðgengilegur allan sólarhringinn en þar verður hægt að taka út og leggja inn reiðufé, borga reikninga og millifæra. Þjónustufulltrúar munu veita ráðgjöf og aðstoða viðskiptavini, t.d. við að nýta sér hraðbankann, Landsbankaappið og aðrar stafrænar lausnir bankans.

Þá kemur fram á síðu Landsbankans að afgreiðslutími bankans á Skagaströnd hafi verið breytt nú í byrjun vikunnar og er afgreiðslan nú opin á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum frá kl. 12-15. Þá hætti Landsbankinn að veita póstþjónustu á Skagaströnd þann 19. janúar síðastliðinn.

Heimildir: Húni.is og Landsbankinn.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir