Landsmótið hafið á Sauðárkróki

Landsmótið á Sauðárkróki hófst í morgun með þriggja tinda göngu en þar er eiga þátttakendur að ganga á þrjá fjallstoppa, Mælifellshnjúk, Tindastól og Molduxa, innan tólf klukkustunda. Klukkan 10 hefst svo pútt fyrir alla á Hlíðarendavelli en þar er ekki krafist skráningar og allir geta tekið þátt. Morgundagurinn verður svo þéttskipaður dagskrá frá morgni til kvölds.

Reyndar segir Pálína Hraundal á heimasíðu UMFÍ að fólk þurfi ekki endilega að ganga á alla tindana þrjá, það sé alveg hægt að ganga á einn ef viðkomandi vilji það frekar. Gangan er merkt sem rauður viðburður í mótadagskrá Landsmótsins sem þýðir að þátttökuarmband þarf til að fara í gönguna og vera skráður í hana. 

Allt öðruvísi Landsmót
Litakóðarnir á Landsmótsins eru þrír. Viðburðir sem merktir eru rauðu eru kynningar og kennsla. Þátttökuarmband þarf til að taka þátt í þeim. Gulu viðburðirnir eru keppnisgreinarnar sjálfar á Landsmótinu og þarf að sjálfsögðu armband til að taka þátt. Viðburðir sem merktir eru með grænu eru svo opnir fyrir alla.

Landsmótið á Sauðárkróki er með splunkunýju og breyttu sniði. Það er opið öllum 18 ára og eldri sem hafa gaman af því að taka þátt í fjölbreyttum íþróttum.

Um 40 ólíkar íþróttagreinar verða í boði, auk tónleika og ýmiss konar skemmtunar og fróðleiks fyrir unga sem aldna. Þannig verður Pallaball í Íþróttahúsinu á laugardagskvöld, að lokinni matarveislu, skemmtidagskrá og balli með Hljómsveit Geirmundar.

Meistarakeppni Íslands
Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri Landsmótsins, segir á umfi.is að samhliða landsmótinu fari fram Meistarakeppni Íslands í frjálsum íþróttum, þar sem allir helstu frjálsíþróttamenn landsins etja kappi saman. „Einnig verður Landsmót 50+ í gangi með þátttöku 50 ára og eldri. Þá eru golfmót á Hlíðarendavelli og keppni í réttstöðulyftu í reiðhöllinni Svaðastöðum haldin utan landsmóts,“ segir Ómar Bragi sem á von á þúsundum gesta í bæinn enda heilmikið fjör í vændum í bæði íþróttum og afþreyingu.

HÉR er hægt að nálgast dagskrá Landsmótsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir