Langar þig í Salinn?
Feykir hefur verið með myndagetraun í blaðinu og spurt hver sé viðkomandi persóna á myndinni. Leikurinn er í samstarfi við tónleikahaldara danslagakeppninnar á Króknum, sem slógu í gegn á Sæluvikunni á Sauðárkróki 2017 og síðasta vetur í Salnum Kópavogi. Verða þeir endurfluttir í Salnum Kópavogi 2. nóvember klukkan 20:30.
Þeir voru margir sem þekktu kappann í tbl. 36 en þar var á ferðinni Gunnar Páll Ingólfsson sem spilaði með hljómsveit Hauks Þorsteinssonar, var kjötiðnaðarmaður á Króknum og samdi trúlega eitt þekktasta lagið sem þátt tók í danslagakeppnum Kvenfélagsins, Útlaginn, við texta Davíðs Stefánssonar.
Dregið var úr réttum svörum og kom nafn Ingibjargar Jóhannesdóttur, Ketu í Hegranesi, upp úr hattinum.
Í síðasta blaði kom ný mynd og því spurt á ný: Hver er konan á myndinni?
Hún átti nokkur lög í keppnunum, líkt og pabbi hennar, sem er kannski eitt af þekktari tónskáldum Skagafjarðar. Þessi kona átti sigurlag í keppninni, Júnínótt, og eftir að tilkynnt var hver væri höfundur, gekk sú saga um bæinn að það gæti bara ekki verið að hún ætti lagið, svo fallegt væri það - pabbi hennar hlyti bara að vera höfundurinn.
En hún átti svo sannarlega lagið, og mörg önnur falleg í keppnunum, og verður m.a flutt lag eftir hana í Salnum þann 2. nóvember næstkomandi.
Svör skulu berast eigi síðar en í dag mánudaginn 8. október á netfangið palli@feykir.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.