Láta smíða nýtt skip í Tyrklandi

FISK Seafood, ásamt Samherja og Útgerðafélagi Akureyringa, hefur gert samning við skipasmíðamiðstöðina Cembre Shipyard í Istanbul í Tyrklandi um smíði á fjórum nýjum ísfisktogurum. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins þann 8. ágúst sl. kaupir Samherji og ÚA þrjá togara og FISK Seafood einn. Skip FISK Seafood mun leysa ísfiskskipið Klakk SK-5 af hólmi en hann var smíðaður árið 1977.  

Áætlað er að smíði fyrsta skipsins hefjist upp úr næstu áramótum og verður afhending þess í apríl/maí 2016. Heildarverðmæti þessara samninga er um 10 milljarðar íslenskrar króna. Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að Samherji hafi látið bjóða í verkið í nokkrum löndum og að tilboðið frá Cembre Shipyard hafi verið hagstæðast. Stálsmíði skipanna mun fara fram í Tyrklandi en íslensk fyrirtæki og aðilar hafa komið að hönnun þeirra.

Þá hefur FISK Seafood einnig gert samning við Alkor skipasmíðastöð í Póllandi um breytingar og endurbætur  á Málmey SK-1. Eins og greint er frá á heimasíðu fyrirtækisins er áætlað að skipið verði komið til Póllands um miðjan september nk. og verklok áætluð um miðjan nóvember. Að lokinni siglingu heim tekur við niðursetning á nýjum búnaði á vinnsludekki skipsins og er vonast til að skipið verði klárt til veiða á ný í ársbyrjun 2015.

 

Fleiri fréttir