Laxveiði í Blöndu borgið í bili

Blanda. Mynd: FE
Blanda. Mynd: FE

Í síðustu viku var útlit fyrir að laxveiðin í Blöndu væri í hættu þar sem Blöndulón var óðum að fyllast vegna mikilla hlýinda í veðri síðustu daga á Norðurlandi. Veðurguðirnir sáu hins vegar að sér og kólnað hefur í veðri og vatnsborðið því lækkað um 6 sentimetra. Því mun yfirfallið verða seinna en virtist vera fyrir helgi. Vonast er nú til að júlímánuður sleppi en um leið og lónið fer í yfirfall verður áin óveiðanleg.

Fjallað er um málið í Sporðaköstum, veiðivef mbl.is og er þar sagt frá því að Landsvirkjun og Veiðifélag Blöndu og Svartár hafi ekki komist að samkomulagi um hvernig bregðast ætti við hárri vatnsstöðu lónsins. Vildu fulltrúar veiðifélagsins opna botnlokur á Blöndulóni og hleypa þannig úr því en Landsvirkjun hafnaði þeirri tillögu. Útlit var fyrir að lónið færi í yfirfall 10.-12. júlí með áframhaldandi hlýindum en síðar ef myndi kólna. Nú hefur orðið svo og því útlit fyrir að júlímánuður sleppi. Bendir fréttavefurinn huni.is á það að í venjulegu ári verði yfirfall um og eftir Verslunarmannahelgi.

Vonast nú veiðimenn til þess að veður haldist kalt næstu daga því veiðisvæðið við Blöndu sé viðkvæmt og megi ekki við áfalli sem þessu.

/SHV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir