Laxveiði lýkur senn

Hrútafjarðará. Mynd:angling.is
Hrútafjarðará. Mynd:angling.is

Nú fer veiði senn að ljúka í laxveiðiám landsins og nú þegar hafa nokkrar ár skilað inn lokatölum. Sem fyrr er veiðin mun tregari í sumar en undanfarið í flestum húnvetnsku ánum en þó hafa Laxá á Ásum og Hrútafjarðará/Síká skilað fleiri löxum nú en allt sumarið í fyrra.

Miðfjarðará er í öðru sæti á lista Landssambands veiðifélaga yfir aflahæstu ár landsins með 1.533 laxa en á sama tíma í fyrra höfðu veiðst þar 2.602 laxar. Laxá á Ásum er með 760 laxa í sjötta sæti en þar veiddust 702 allt árið í fyrra. Blanda er í ellefta sætinu með 638 miðað við 870 í fyrra. Þess má geta að það mun ekki hafa gerst í 23 ár að fleiri laxar veiðist í Laxá en í Blöndu.

Ekki hafa borist nýjar tölur fyrir Víðidalsá en þann 11. þ.m. var aflinn þar 402 laxar. Hún er í 18. sætinu og á hæla henni, í 19. sæti, kemur Vatnsdalsá með 395 laxa. Rétt á eftir þeim eru Hrútafjarðará og Síká sem hafa skilað 365 löxum en lokatölur þar voru 360 í fyrra. Loks kemur Svartá með 54 laxa þann 11. september en ekki hafa borist nýjar tölur þaðan.

Í þættinum Sporðaköst á mbl.is birtist nýlega listi yfir þær ár og veiðisvæði sem gefið hafa fiska sem ná meters lengd eða meira. Þar má sjá að sjö slíkir höfðu veiðst í Víðidalsá, fjórir í Miðfjarðará og tveir í Vatnsdalsá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir