Leikflokkur Húnaþings vestra er framúrskarandi verkefni á sviði menningar 2023

Á myndinni má sjá hluta af stjórn leikflokksins, Ragnar Heiðar Ólafsson, Arnar Hrólfsson og Erlu Björg Kristinsdóttur ásamt Katrínu M. Guðjónsdóttur, framkvæmdastjóra SSNV. Mynd tekin af ssnv.is
Á myndinni má sjá hluta af stjórn leikflokksins, Ragnar Heiðar Ólafsson, Arnar Hrólfsson og Erlu Björg Kristinsdóttur ásamt Katrínu M. Guðjónsdóttur, framkvæmdastjóra SSNV. Mynd tekin af ssnv.is

Í byrjun janúar á þessu ári óskaði SSNV eftir tilnefningum í framúrskarandi verkefni á árinu 2023 á Norðurlandi vestra í tveimur flokkum. Á sviði atvinnu og nýsköpunar hlaut Kaffibrennslan Korg í Skagafirði viðurkenninguna en á sviði menningar var það Leikflokkur Húnaþings vestra sem hlaut viðurkenninguna að þessu sinni fyrir leikritið Himinn og Jörð. Leikflokkurinn hefur getið af sér gott orðspor við uppsetningu á verkefnum og er árangurinn eftir því.

Leikflokkurinn setti upp sýninguna Himinn og jörð eftir Ármann Guðmundsson en söngleikurinn var saminn fyrir leikflokkinn við 16 lög Gunnars Þórðarsonar. Sýningar leikflokksins eru unnar af gríðarlegum metnaði og hvergi slegið af kröfum við uppfærslur. Leikmynd, búningar og leikgervi, dansar, tónlistarflutningur, lýsing og hljóðblöndun skapa saman sterka heild. Leikflokkurinn hefur tvívegis frá árinu 2019 verið með verk sem valin hafa verið athyglisverðasta sýning hjá áhugaleikfélagi innan Bandalags íslenskra leikfélaga, annars vegar Hárið árið 2019 og hins vegar Pétur Pan 2022.

Eftirfarandi er umsögn dómnefndar um athyglisverðustu áhugaleiksýningu frá 2019: Stór leikhópurinn er skipaður hæfileikafólki sem nýtur sín í botn, og sterkur söngur, leikgleði og orka er allsráðandi. Afslappaður leikurinn skilar frásögninni á einlægan og einfaldan máta þannig að húmor og boðskapur verksins komast vel til skila. Það skal tekið fram að þetta er í fyrsta sinn sem sýning Leikflokks Húnaþings vestra er valin áhugasýning ársins, og það vakti sérstaka athygli dómnefndar hvað starfsemi leikflokksins er öflug í ár. Önnur sýning leikflokksins kom einnig sterklega til greina við valið, Snædrottingin í leikstjórn Gretu Clough, sem er listræn, frumleg og athyglisverð sýning.

Það er því óhætt að fullyrða að leikflokkur Húnaþings vestra sé vel að viðurkenningunni kominn.

Hægt er að fylgjast með Leikflokknum á heimasíðu og samfélagsmiðlum Leikflokksins.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir