Leikir helgarinnar hjá yngri flokkum Tindastóls

Friðrik þjálfari með tvö lið í hópmynd, 8-9 ára strákar og 10-11 ára strákar. Ljósmyndari: Rakel Kemp Guðnadóttir
Friðrik þjálfari með tvö lið í hópmynd, 8-9 ára strákar og 10-11 ára strákar. Ljósmyndari: Rakel Kemp Guðnadóttir

Það voru nokkrir leikir á dagskrá hjá yngri flokkum Tindastóls um helgina ásamt því að Þór Akureyri stóð fyrir Hreinsitæknimóti sem ætlað var krökkum frá 1.bekk upp í 6.bekk.

10.fl. karla hjá Tindastól mætti KR b í tveimur leikjum um helgina og fór fyrri leikurinn fram föstudagskvöldið 18. nóvember. Mikil barátta var allan tímann en KR-ingar voru alltaf skrefinu á undan og fór svo að þeir höfðu sigur að lokum 53-58.

Seinni leikur liðanna fór svo fram daginn eftir, laugardaginn 19. nóvember, og enn hélt baráttan áfram og staðan í hálfleik 40-37. Í þriðja leikhluta náðu okkar strákar góðu áhlaupi og að honum loknum var staðan 59-46. Þeir náðu svo að halda forystunni til leiksloka þó að KR-ingar hafi saxað vel á forskotið undir lokin, staðan 70-66.

Sameinað lið Kormáks/Tindstóls í 9.fl. kvenna spilaði einnig á laugardaginn í Síkinu á móti Stjörnunni sem var með yfirhöndina framan af í leiknum en okkar stelpur komu til baka og náðu að jafna rétt fyrir hálfleik, staðan 21 – 21. Baráttan hélt áfram í þriðja leikhluta en í þeim fjórða skildu leiðir og endaði leikurinn á því að Stjarnan fór með sigurinn, staðan 39-57. Stelpurnar sitja í áttunda sæti í 1. deildinni eftir fjóra tapleiki. Þær eiga næsta leik við Njarðvík sem gæti reynst þeim erfiður því þær sitja í þriðja sæti með einungis einn tapleik.

Á mánudaginn átti 10.fl. karla sinn þriðja leik á fjórum dögum en nú á móti Þór Ak. í Síkinu. Byrjuðu Þórsarar betur og var greinilegt að strákarnir okkar voru þreyttir eftir KR leikina um helgina. Þeir voru svolítið lengi að vakna og staðan í hálfleik 25-30 fyrir Þór Ak. Í seinni hálfleik hélt fjörið áfram og hvorugt liðið ætlaði að gefa eftir og náðu strákarnir okkar að enda leikinn með eins stigs mun, staðan 56-55 fyrir Stólastrákum. Þeir sitja núna í 2. sæti í 2. deildinni með 12 stig og búnir að spila sjö leiki, sex sigrar og eitt tap. Í fyrsta sæti er ÍR en þeir eru búnir að spila átta leiki, sjö sigrar og eitt tap. Stólastrákar eiga næst tvo útileiki á móti Hetti á Egilsstöðum helgina 3. og 4. desember.

Á laugardaginn var Hreinsitæknimót Þórs í Höllinni á Akureyri. Tindastóll átti þar fulltrúa í nokkrum flokkum, eitt lið í flokki 10-11 ára stráka, tvö lið í flokki 8-9 ára stráka, eitt lið í 8-9 ára stelpu og svo fjögur lið í flokki 6-7 ára stelpu og stráka. Stemmningin var frábær og ekki annað að sjá en að bæði krakkar og fullorðnir hafi skemmt sér vel. Þarna voru nokkrir keppendur á sínu fyrsta körfuboltamóti og var því mikil spenna í loftinu. Einnig var skellt í Stinger keppni hjá öllum flokkunum og átti Tindastóll einn sigurvegara, Stefán Þór Kemp í 6. bekk, frábær frammistaða. Á þessu móti er aðal hugsunin að búa til skemmtun fyrir krakkana en ekki verið að einblína á stöðuna í leikjunum eða hver sigrar. Það eru því allir sigurvegarar og fengu allir þátttakendur sundpoka og gjafabréf fyrir ís.

Tindastóll þakkar Þór fyrir flott mót og hlakkar til að mæta með nýja fulltrúa að ári.

Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir