Leikur tveggja ólíkra hálfleikja þegar Stólastúlkur misstigu sig í Mjólkurbikarnum

Laufey Harpa gerði mark Tindastóls í leiknum af harðfylgi. Hér er hún í leik gegn Augnabliki nú í vikunni. MYND: ÓAB
Laufey Harpa gerði mark Tindastóls í leiknum af harðfylgi. Hér er hún í leik gegn Augnabliki nú í vikunni. MYND: ÓAB

Tindastólsstúlkur féllu úr leik í Mjólkurbikarnum í gærkvöldi eftir hörkuleik við Pepsi Max-deildar lið KR á Meistaravöllum. Stólastúlkur voru 0-1 yfir í hálfleik eftir að hafa fengið fjölmörg góð færi en lið KR refsaði grimmilega í síðari hálfleik, gerðu þá fjögur mörk á 18 mínútna kafla.

Leikurinn fór rólega af stað en þegar á leið fór lið Tindastóls að ógna meir og meir. Áður en Laufey Harpa gerði mark Tindastóls  á 37. mínútu hafði Mur sett boltann í sammarann og Aldís María skotið í stöng. Stólastúlkur beittu skyndisóknum og áttu mun fleiri og betri færi en heimastúlkur í fyrri hálfleik og voru hreinlega óheppnar að vera ekki með meiri forystu.  

Að sjálfsögðu beit þetta stelpurnar í rassinn í síðari hálfleik. Stólastúlkur voru ógnandi fyrstu mínútur síðari hálfleiks en eftir að Thelma Lóa jafnaði fyrir KR á 52. mínútu þá gengu þær á lagið. Katrín Ásbjörns kom Vesturbæingum yfir með þrumuskoti sex mínútum síðar og sex míútum eftir það gerði Thelma Lóa annað mark sitt í leiknum eftir sendingu frá Katrínu Ómars. Katrín kórónaði síðan endurkomu KR með marki á 70. mínútu. Lið Tindastóls átti nokkrar góðar sóknir eftir þetta en stelpurnar náðu ekki að minnka muninn og kvöddu því Mjólkurbikarinn á Meistaravöllum.

„Það er ekki annað hægt að segja en að þetta hafi verið leikur tveggja ólíkra hálfleikja,“ sagði Guðni Þór Einarsson, annar þjálfara Tindastóls, þegar Feykir náði í skottið á honum að leik loknum.

Frábær fyrri hálfleikur. Hvað er það sem gerist í þeim síðari? „Það er er erfitt að útskýra hvað gerist nákvæmlega á þessum 20 mínútna slæma kafla sem mörkin þeirra koma á. Hægt væri að nefna þreytu og einbeitingarleysi en liðið var að spila þriðja leikinn á átta dögum.“

Hvar liggja helst vonbrigðin að leik loknum? „Það eru smá vonbrigði að hafa ekki brugðist betur við eftir fyrsta markið þeirra, þá kemur blæðing sem við náðum því miður ekki að stöðva. KR liðið er vel mannað af stelpum sem hafa spilað A landsleiki og þær einfaldlega refsuðu okkur.“

Hvað fannst þér um frammistöðu Tindastóls liðsins? „Heilt yfir get ég ekki annað verið en svakalega stoltur af stelpunum. Við vorum betri en þær í 70 mín af leiknum og með smá heppni hefðum við getað verið 2-3 0 yfir í hálfleik. Fyrri hálfleikurinn var stórkostlegur, vörðumst mjög vel og fengum hættulegri færi en KR. Við sýndum að við getum vel barist við liðin í Pepsi deildinni og þangað skal þetta lið fara. Við tökum þær á næsta ári. Það er nánast ómögulegt að velja bestu leikmenn leiksins. Í fyrri hálfleik áttu allar sem ein algjöran toppleik. Stelpurnar sýndu mikla baráttu og samvinnu sem hefur skilað okkur svo langt síðustu ár.  Við verðum allavega ekki bikarmeistarar í ár en núna getum við einbeitt okkur eingöngu að stóra markmiðinu okkar og það er að láta drauminn rætast – hann lifir enn,“ segir Guðni að lokum. Á Fótbolti.net má einnig kíkja á prýðilegt spjall við fyrirliða Tindastóls, Bryndísi Rut. >

Næsti leikur Tindastóls í Lengjudeildinni er gegn Gróttu á Seltjarnarnesinu nú á fimmtudag en síðan kemur lið Fjölnis á KS-teppið á Króknum þriðjudaginn 21. júlí. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir