Leita að fyrirtækjum til að þróa heildstæða stafræna tækni

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, SSNV, auglýsa á vef sínum eftir litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Norðurlandi vestra sem hafa áhuga á að þróa heildstæða stafræna tækni (e. immersive technology) í markaðslegum tilgangi fyrir fyrirtæki sín. 

Heildstæð stafræn tækni er meðal annars 360 gráðu myndbönd, aukinn veruleiki og sýndarveruleiki, og er hún notuð til að skapa einstaka upplifun sem segir sögu fyrirtækis og/eða vöru/þjónustu. Þessi tækni auðveldar samskipti við viðskiptavini og gerir fyrirtækjum kleift að veita viðskiptavinum afþreyingu með nýstárlegum sögum um fyrirtækið, vöruna eða þjónustuna sem fyrirtækið veitir. Stafrænt umhverfi gerir fólki kleift að kynna sér vörur og þjónustu og hvernig notkunarmöguleikar eru án þess að vera á staðnum sem getur aukið jákvæð samskipti viðskiptavina við fyrirtækið og um leið skapað markaðsefni sem er sniðið að ákveðnum markhópi.

Í fyrsta hluta verkefnisins er leitað eftir fyrirtækjum á Norðurlandi vestra sem hafa áhuga og möguleika á að nýta sér stafræna tækni í markaðssetningu. Í öðrum hluta verða frumgerðir úr fyrsta hluta þróaðar áfram í skilgreindar og notendavænar tæknilausnir til að nýta í markaðsstefnu fyrirtækisins.

Í fyrsta skrefinu stefnir SSNV að þróunarvinnu með allt að tíu fyrirtækjum á svæðinu í að sannreyna hugmyndir, sem svo leiði svo til ítarlegri niðurstaðna. Í seinna skrefinu er stefnt að því að vinna með allt að þremur fyrirtækjum við að þróa þeirra frumgerðir áfram.

Verkefni þetta er styrkt af Norðurslóðaáætlun 2014-2020.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir