Leitað að bókum Sigurgeirs á Orrastöðum

Sigurgeir Björnsson er bjó á Orrastöðum til ársins 1936 er hann lést aðeins 51 árs var mikill bókamaður, en talið er að nokkru eftir andlátið hafi þorri bókanna verið seldur á nauðungaruppboði. Nú er leitað til almennings og reynt að safna saman sem flestum bókum á einn stað.

Nokkur hluti safnsins hefur varðveist í höndum erfingja Sigurgeirs og hafa þær bækur nú öðlast nýjan samastað heima í héraði, þ.e. á Héraðsskjalasafninu á Blönduósi. Þar er nú sérlegur bókaskápur sem hýsir þessar gagnmerku bækur Sigurgeirs heitins. Enn er þó nægilegt hillupláss fyrir fleiri rit, og því er verið að grennslast fyrir um hvort bækur merktar með stimpli Sigurgeirs leynist á heimilum þeirra er þetta lesa. Sé svo þætti mikill akkur í því að ná sem flestum ritum þessa merka bónda á einn stað eða altént að fá vitneskju um tilvist þeirra til skráningar.

-Vissulega lagði Sigurgeir mikið í sölurnar til þess að öðlast þekkingu á gangi heimsmálanna, allt frá smæstu eindum og upp í víddir stjarnfræðinnar. Einnig er áhugavert hvað hann tók þátt í stofnun margra framfarafélaga í sveit sinni og var auk þess virkur í stjórnun þeirra og starfsemi, segir í tilkynningu frá Sigurgeiri Þorbjörnssyni sem biður þá sem vilja leggja þessum málum lið að hafa samband við hann í síma 869 3642 eða hlin@mmedia.is

Fleiri fréttir