Leitað að lestrarömmum
Vinna í tengslum við þróunarverkefnið Orð af orði stendur nú sem hæst í Blönduskóla og eru veggir skólans að verða afar skrautlegir vegna þessa. Börnin taka þátt í lestrarátaki og nú er leitað að lestrarömmum.
Nemendur í 1. – 7. bekk hafa verið afar duglegir að lesa og fylla út lestrarmiða vegna lestrarátaks Ævars vísindamanns og njóta yndislestursins á hverjum degi. Lestrarátakið „Allir lesa“ hefst svo 17. október, og þar mega allir nemendur taka þátt og foreldrar og kennarar líka.
Vegna alls þessa lesturs er staðan orðin þannig að farið er að vanta eiginlega bækur á bókasafnið og datt aðstandendum það þjóð að leita til almennings um fleiri bækur á safnið. Gæti verið að heima hjá ykkur leyndust barna- og unglingabækur sem koma að litlum notum? Gætuð þið hugsað ykkur að gefa skólanum bækur sem öll börnin og allir unglingarnir á heimilinu hafa lesið og ekki stendur til að geyma sérstaklega?
Þá hefur heyrst af frábæru verkefni bæði í Reykjanesbæ og á Akureyri sem kallast lestrarömmur. Það er þannig að „ömmur“ koma í skóla og láta börn lesa fyrir sig. Er því leitað að einhverjum áhugasömum þarna úti sem eiga kannski lausan klukkutíma á viku. Tekið er fram að þetta þurfa ekki að vera eiginlegar ömmur og auðvitað mega áhugasamir karlmenn gjarnan bjóða aðstoð sína.