Leitin að sveitastjóra heldur áfram - rætt um að stofna Facebookarhóp

 Jón Baldvinsson, einn umsækjenda um stöðu sveitastjóra í Skagafirði, gagnrýnir i Morgunblaðinu í dag vinnubrögð nýrrar sveitastjórnar í Skagafirði í kringum ráðningu nýs sveitastjóra en þrátt fyrir að nýr meirihluti hafi verið myndaður í byrjun sumars hefur ekki enn tekist að ráða nýjan sveitastjóra í Skagafirði en önnur sveitarfélög á landinu hafa öll gengið frá sínum málum.

Í samtali við Moggann segir Jón, -Ég var sveitarstjóri í 14 ár og rak ráðgjafarþjónustu í tíu ár og veit vel hvernig svona umsóknir eru meðhöndlaðar. Ef einhverjir koma til greina eru þeir kallaðir í viðtal. Það er afskaplega ófagmannlega staðið að þessu.

Samkvæmt heimildum Feykis ríkir óeining innan meirihlutans um hvernig skuli að ráðningu sveitarstjóra staðið en ráðning sveitarstjóra var eitt af þeim málum sem steytti á í stuttum viðræðum Framsóknarmanna og Samfylkingar í vor en samkvæmt sömu heimildum var það krafa Framsóknarmanna að fá algjörlega að ráða ráðningu sveitarstjóra.

Þá er komin ókyrrð meðal starfsfólks innan ráðhússins sem ekki virðist gera sér að fullu grein fyrir hvernig hinn nýi meirihluti mun starfa.

Starfið mun ekki verða auglýst að nýju og munu menn halda áfram leit sinni að sveitarstjóra.

Stefán Vagn staðfesti í samtali við Feyki að ekki hafi náðst eining innan hópsins um eitt einasta nafn hinna 17 umsækjenda og því hafi ekki verið rætt við neinn þeirra. Aðspurður segir hann ekki telja að neitt óvenjulegt sé við þau vinnubrögð. -Nafn þess sem við erum að leita að var ekki innan þessa hóps, segir Stefán Vagn.

Stefán Vagn segir að nú þegar séu menn komnir niður á eitt nafn sem menn séu ásáttir um að leita til og segir Stefán að sá aðili hafi lýst áhuga á að ræða við sveitastjórnina.

En skyldu verða komin einhver tímamörk á ráðningu nýs manns? -Nei alls ekki, við vitum jú að við þurfum að fara að vinna þetta hraðar en við teljum mikilvægara að finna rétta manninn en að ana út í eitthvað sem ekki er rétt, svarar Stefán.

Guðmundur Guðlaugsson mun áfram sinna starfi sveitartjóra þar til nýr sveitastjóri  verður ráðinn. 

Að sögn Sigurjóns Þórðarssonar hjá Frjálslyndaflokknum liggja nú þegar nokkur mál í bið eftir nýjum sveitastjóra. -Þetta er að verða hálf vandræðalegt allt saman ætli maður stofni ekki bara Facebookarhóp til þess að aðstoða menn við leitina að hinum rétta sveitarstjóra, segir Sigurjón.

Í aðsendri grein á Feyki.is segir Jón Magnússon, Sjálfstæðismaður m.a. -Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna sagði ég í ræðu, að ég gleddist yfir því að Lísa væri ekki ein í Undralandi, því Stefán Vagn væri þar greinilega einnig. Tilefni þessara orða var túlkun oddvita framsóknarmanna á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins, sem var algerlega úr takti við raunveruleikann. Nú hefur Stefáni Vagni  og meðreiðarsveini hans hins vegar tekist að draga alla Skagfirðinga með sér til Undralands, því atburðarásin við ráðningu nýs sveitarstjóra getur vart átt sér stað í Mannheimum, þvílík eru endemin.  Grein Jóns má lesa í heild sinni hér

 Ekki mun þetta vera í fyrsta sinn sem Framsóknarmenn ná ekki að mynda meirihluta en Jónas frá Hriflu mun snemma á síðustu öld hafa haldið hópi manna í þingflokksherbergi Framsóknar en þá höfðu þeir náð hreinum meirihluta. Ekki náðist eining um þá ríkisstjórn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir