Lið Kormáks/Hvatar á bullandi siglingu

„Heitasta lið 3. deildar komið í 5. sætið með sigrinum í kvöld. Fullt af fastamönnum frá en aðrir stíga upp. Ósigraðir í síðustu sex leikjum. Gaman!“ segir á aðdáendasíðu Kormáks en þar má fylgjast með helstu fréttum af leikjum Kormáks/Hvatar og ævintýrum þeirra í fótboltanum. Í gærkvöldi spilaði lið Húnvetninga á Hvammstangavelli og sá til þess að Vængir Júpiters náðu ekki að hefja sig til flugs. Lokatölur 2-0.

Það var Acai Nauset Elvira Rodriguez sem gerði fyrra mark leiksins á 39. mínútu og það var síðan á 80. mínútu sem Aliu Djalo bætti síðara markinu við úr vítaspyrnu.

Sem fyrr segir er lið Kormáks/Hvatar nú komið upp í fimmta sæti deildarinnar með 20 stig að loknum 13 umferðum. Lið KFG, Víðis í Garði og Dalvíkur/Reynis eru öll með 25 stig í þremur efstu sætum deildarinnar og Sindri er með 24 stig. Nú á miðvikudaginn sækja Húnvetningar lið Kára heim í Akraneshöllina og sigur þar mundi skjóta Húnvetningum upp í toppbaráttuna. Liðið er á bullandi skriði og gaman að fylgjast með velgengninni sem kemur sennilega flestum á óvart.

Áfram Kormákur/Hvöt!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir