Lið Skagafjarðar komið í þriðju umferð í Útsvari
Skagfirsku kvenskörungarnir í Útsvari stóðu sig með eindæmum vel í gærkvöldi þegar þær stöllur, Erla Björt Björnsdóttir, Guðrún Helgadóttir og Guðrún Rögnvaldardóttir, gerðu sér lítið fyrir og slógu út systkinin af Seltjarnarnesi í spennandi þætti.
Lið Skagafjarðar fór vel af stað og náði forystu, Guðrún frá Hólum lék eldhúsáhöld af snilld og að orðaleiknum loknum var staðan 49-38. Seltirningar náðu sér á strik í flokkaspurningunum og jöfnuðu 51-51 en það var síðan á lokakaflanum, í stóru spurningunum, sem leiðir skildu, lokatölur 76-51 fyrir Skagafjörð og liðið komið í þriðju umferð en svo langt hafa lið Skagafjarðar aldrei náð í þáttunum.
Í lokin skiptust liðin síðan á gjöfum og fengu Skagfirðingarnir bók Yrsu Sigurðardóttur að gjöf en færðu Seltirningum í staðinn vetrarpakka í fjörðinn fagra; miða á Vínartónleika Karlakórsins Heimis sem fram fara í Menningarhúsinu Miðgarði um næstu helgi, aðgang að skíðasvæði Tindastóls, út að borða á Ólafshúsi og síðan verða systkinin að skipta á milli sín gistingu á Hótel Varmahlið, Hótel Tindastóli og Miklagarði.