LIÐ TINDASTÓLS ÍSLANDSMEISTARI :: Uppfærð frásögn

Var einhver að vonast eftir spennu? Kannski dramatík? Það var allur pakkinn á Hlíðarenda í kvöld þegar Stólarnir sóttu fyrsta Íslandsmeistaratitilinn í sögu félagsins, lentu undir, voru undir lengi, komu til baka en voru fimm stigum undir þegar ein og hálf mínúta var eftir. Og svo bara rættust allar óskir Tindastólsmanna, allir voru bænheyrðir og í leikslok mátti heyra flugelda springa á Króknum – eða var það ekki annars? Það var Keyshawn Woods sem reyndist svo svellkaldur á vítalínunni í lokin að það var óraunverulegt. Hann kom Stólunum stigi yfir þegar rúmar fjórar sekúndur voru eftir, hafði fengið þrjú vitaskot og setti þau öll niður eins og að drekka vatn. Það síðasta með fallegasta skoppi körfuboltasögunnar. Lokatölur 81-82 og fagnaðarlátum gestaliðsins á Hlíðarenda ætlaði aldrei að linna. Til hamingju Tindastólsfólk nær og fjær!

Kannski má segja að draumur Tindastólsfólks um titilinn norður á Krók hafi verið einn fallegasti draumurinn í íslenskri íþróttasögu. Draumur sem virtist aldrei ætla að verða að veruleika. Fjórum sinnum áður höfðu Stólarnir komist í úrslitaeinvígi um titilinn en oftar en ekki höltruðu þeir til leiks með lykilmenn í lamasessi.

Að þessu sinni var lukkan með okkar mönnum, meiðsli eftir langa og stranga úrslitakeppni ekki það alvarleg að menn gætu ekki beitt sér. Það skilaði sér í ævintýralegu einvígi gegn meistaraliði Vals þar sem þau undur og stórmerki urðu að allir fimm leikir einvígisins unnust á útivelli. Og leikirnir svo sveiflukenndir að bestu reifarahöfundar hefðu varla haft ímyndunarafl í svo farsakenndar fléttur. Liðin sem byrjuðu leikina svo ótrúlega vel, að vart var hægt að sjá fyrir að andstæðingurinn gæti rönd við reist, lentu í tómu basli þegar leið á leikina. Þannig var það einmitt í kvöld.

Valsmenn, léttir í lund, fengu fljúgandi start og Stólarnir vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Pavel tók leikhlé þegar fjórar mínútur voru liðnar og staðan 11-2. Hann benti mönnum með stóískri ró á að það væru 36 mínútur eftir af leiknum og kannski rétt að byrja leikinn að nýju. Stólarnir fóru að skora en heimamenn skoruðu meira og voru yfir eftir fyrsta leikhluta, 27-14. Í öðrum leikhluta söxuðu gestirnir á forskot Vals og nokkuð ljóst að Tindastólsmenn voru ekki komnir til að leggjast í kör. Staðan í hálfleik var 43-38.

Síðari hálfleikurinn var síðan naglbítur af bestu gerð. Stemningin hreint út sagt sturluð hjá báðum settum stuðningsmanna en talið er að um 2500 manns hafi fyllt Origo-höllina í kvöld. Vörn Tindastólsmanna óx ásmegin og sóknarleikur Vals gekk illa. Þegar fimm mínútur voru liðnar jafnaði Keyshawn metin, 55-55, og vindurinn virtist í seglum Skagfirðinga. Liðin skiptust á um að hafa forystuna en geggjaður flautuþristur frá Keyshawn sá til þess að Stólarnir voru stigi yfir fyrir lokaátökin. Staðan 63-64.

Taiwo kom Stólunum þremur stigum yfir í byrjun fjórða leikhluta og það var nú mesta forystan sem gestirnir höfðu allan leikinn. Stólarnir héldu frumkvæðinu næstu mínútur og stuðningsmenn í sturluðu draumalandi í stúkunni. Valsmenn jöfnuðu síðan metin, 70-70, Arnar kom okkur aftur yfir en Kristófer jafnaði að nýju, 72-72. Þá kom Kári nokkur Jóns til sögunnar og gerði fimm stig í röð og kom heimamönnum í þægilega forystu, 77-72. Sennilega eru fimm stig ekki þægileg forysta í körfubolta því mínútu síðar höfðu Kewshaw og Taiwo náð að jafna leikinn, 79-79. Valsmenn tóku leikhlé og upp úr því fékk Kári boltann og komst auðveldlega að körfu Stólanna og kom Val tveimur stigum yfir þegar 5,8 sekúdur voru eftir. Stólar tóku leikhlé og upp úr því fékk Keyshawn boltann, reyndi erfitt 3ja stiga skot sem geigaði en Hjálmar braut á honum í skotinu og villa dæmd. Og þá komst Keyshawn í sögubækurnar.

Leikur liðanna var frábært skemmtun og enginn þreytubragur á þeim þó hart hafi verið tekist á í úrslitakeppninni. Stólarnir lögðu allt í sölurnar og virtust hafa óbilandi trú á verkefninu. Keyshawn átti stórleik, gerði 33 stig og tók fimm fráköst. Pétur var sömuleiðis í gírnum, gerði níu stig, tók 11 fráköst og átti átta stoðsendingar. Taiwo gerði tólf stig og tók tíu fráköst. Drungilas barðist eins og ljón og máttu góðir dómarar leiksins hafa sig alla við til að greina á milli brota og floppa hvar sem hann lét til sín taka. Annars skiluðu allir sínu í kvöld og áttu sinn þátt í stærstu stundinni í sögu Tindastóls.

Það var síðan stórfenglegt að sjá Helga Rafn fyrirliða og kónginn Pétur Rúnar lyfta bikarnum, sem hefur látið bíða eftir sér, á loft í lokin, umkringdir Tindastólsfólki sem var að springa úr hamingju.

Til hamingju Tindastólsfólk nær og fjær – nú getum við leyft okkur að anda!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir