Lífshættuleg líkamsárás á Hvammstanga

Karlmaður á fertugsaldri hlaut lífshættulega áverka þegar ráðist var á hann á Hvammstanga í gærkvöldi. Samkvæmt heimildum Rúv.is hafa fjórir karlmenn verið handteknir í tengslum við rannsókn málsins og eru þeir í fangageymslum á Akureyri.

Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl til Reykjavíkur og segir á Rúv.is að læknir á bráðadeild Landspítalans hafi tilkynnt málið til lögreglu.

„Lækninum var ekki kunnugt um hvernig áverkarnir væri til komnir. Hann tilkynnti málið kl. 21:22 í gærkvöldi og að grunur væri á um að áverkar mannsins væru til komnir vegna refsiverðrar háttsemi. Að sögn vakthafandi læknis á gjörgæsludeild er maðurinn enn í lífshættu og er haldið sofandi í öndunarvél.

Rannsókn málsins er á frumstigi og ekki er hægt að gera nánari grein fyrir málsatvikunum á þessu stigi. Gert er ráð fyrir að lögreglustjórinn á Akureyri muni fara fram á gæsluvarðhald yfir hinum grunuðu  síðar í kvöld.

Fleiri fréttir